Sjálfstæðismenn í borgarstjórn eru iðnir við að stríða Viðreisnarfólkinu þar með því að segja þau vera vinstrisinna. Alkunna er að staða Viðreisnar innan meirihlutans er afgerandi. Nóg um það að sinni:
„Vinstrimeirihlutinn í Reykjavík gengur út frá því að byggðar verði 4.000 íbúðir á flugvallarsvæðinu. Ekkert bendir hins vegar til þess að það verði mögulegt á næstu 10-20 árum, þar sem annað flugvallarstæði liggur ekki fyrir. Aukinheldur mun niðursveiflan vegna kórónuveirunnar gera fjármögnun nýs flugvallar enn ólíklegri,“ bókuðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins.
„Með öðrum orðum er stórt gat í húsnæðisáætlun borgarinnar upp á 4.000 íbúðir. Augljós valkostur hefði verið að leyfa byggingu hagkvæms húsnæðis í Örfirisey í Vesturbænum annars vegar og á Keldnalandinu hins vegar. Ein forsenda samgöngusáttmálans er skipulagning Keldnalandsins. Jafnframt er lagt upp með það í Lífskjarasamningunum og tillögur ríkisins er varðar húsnæðisuppbyggingu fyrir alla að Keldnalandið verði skipulagt fyrir íbúðabyggð og það hefjist á árinu 2019. Ætli vinstrimeirihlutinn í Reykjavík sér að standa við skuldbindingar sínar verður ekki undan þessu loforði vikist en gera má ráð fyrir að sáttmálinn verði að engu verði Keldnalandið ekki skipulagt í tæka tíð. Þá má jafnframt benda á að meirihlutinn mun fara gegn verkalýðshreyfingunni í landinu hefjist þeir ekki handa og það sem fyrst,“ bókuðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins.
Meirihlutinn bókaði að bragði:
„Síðustu fimm ár er mesta uppbyggingartímabil nýrra íbúða í Reykjavík í áratugi. Samtals hefur hafist bygging á tæplega 5700 nýjum íbúðum frá ársbyrjun 2015. Öll sú húsnæðisuppbygging stendur á grunni Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Á þessu kjörtímabili hafa verið skipulögð svæði fyrir þúsundir íbúða og eru þar efst á blaði lágtekjuhópar. Staðan núna er sú að næstum 20 af hverjum 100 íbúðum í Reykjavík eru fyrir lágtekjuhópa og er það langhæsta hlutfall á landinu. Hvorki Örfirisey né Keldur ganga hins vegar upp sem uppbyggingarsvæði fyrir íbúðir í allra nánustu framtíð heldur verður húsnæðisuppbygging að haldast í hendur við uppbyggingu öflugra almenningssamgangna – rétt eins og fyrirhugað er í Aðalskipulagi Reykjavíkur.“