Að fara í felur frá yfirvöldum er örþrifaráð.
Sema Erla Serdar skrifaði:
Á Íslandi eru nú fjögur börn á aldrinum 2-12 ára í felum frá íslenskum stjórnvöldum ásamt foreldrum sínum. Fjölskyldan kom hingað fyrir meira en tveimur árum síðan í leit að skjóli og vernd frá pólitískum ofsóknum og ofbeldi stjórnvalda í heimalandi þeirra. Viðbrögð íslenskra stjórnvalda við þeirri saklausu beiðni var að hrekja þau aftur á flótta – nú frá íslenskum stjórnvöldum.
Ástæðan fyrir því að Abdalla, Rewida, Hamza og Mustafa eru nú á flótta á Íslandi og í felum í því samfélagi sem þau héldu að væri samfélagið þeirra er kerfisbundið ofbeldi íslenskra stjórnvalda á börnum á flótta.
Að fara í felur frá yfirvöldum er örþrifaráð. Það er það allra síðasta sem þú gerir í þeirri stöðu sem fjölskyldan er í – sérstaklega þegar um börn er að ræða. Að fara í felur frá yfirvöldum gerir enginn af gamni sínu – ekki frekar en að fara á flótta. Afleiðingarnar eru átakanlegar, á líkama, á sál, á hjarta.
Sú ákvörðun fjölskyldunnar að fara í felur lýsir ekki glæpamönnum eða hryðjuverkamönnum. Það lýsir foreldrum sem eru heltekin af ótta um börnin sín og örlög þeirra. Það lýsir skelfingu, eymd og örvæntingu sem fæst okkar þekkja sem betur fer af eigin reynslu en flest okkar geta lesið úr augum barnanna og foreldra þeirra síðustu daga.
Í stað þess að dæma og í stað þess að velta vöngum yfir því hvort það hafi verið rétt eða rangt að grípa til þessa örþrifaráðs skulum við öll staldra aðeins við og minna okkur sjálf og öll í kringum okkur á það að VIÐ MYNDUM ÖLL GERA ÞAÐ SAMA ef við værum í sporum foreldranna. Við myndum öll gera allt það sem við gætum og þyrftum að gera til þess að vernda okkar eigin börn frá hamförum og hremmingum.
Sú staða sem fjölskyldan er nú í er til komin vegna ómanneskjulegrar og hreinlega grimmilegrar meðferðar íslenskra stjórnvalda á þeim. Rétt eins og íslensk stjórnvöld komu þeim í þessa erfiðu stöðu geta þau með einföldum hætti komið þeim úr henni.
Það er mikilvægt að við höldum áfram að standa með börnunum sem þurfa á okkur að halda, að við drögum ekki úr stuðningi við þau, heldur höldum áfram að þrýsta á íslensk stjórnvöld um að sýna mannúð, samkennd og kærleika og veita börnunum öryggi og vernd á Íslandi. NÚ SEM ALDREI FYRR!