- Advertisement -

„Fjármálastofnanir fylltust af peningum“

Þannig að hætt er við að þessi öfugi spírall fái framhaldslíf.

Þröstur Ólafsson hagfræðingur skrifaði:

Samanburður, metingur, metnaður. Í þessu litla íslenska hagkerfi er sífelldur innri spenningur. Á því verður í bráð lítil breyting. Þau öfl sem ráða ferðinni átta sig sjálf ekki á vegferðinni. Ætla í þetta sinn ekki að ræða mesta bölvaldinn – íslensku krónuna. Vil benda á annan ekki jafn öflugan en mjög virkan.

Á öldinni sem leið voru ekki greiddar háar fjárfúlgur fyrir að sitja í stjórn fyrirtækja eða opinberra stofnana hvað þá nefnda. Undir lok aldamótanna fór þetta að breytast. Fjármálastofnanir fylltust af peningum, sem þeir höfðu ýmist fengið þegar nýir eigendur hófu að hirða allan innmat úr velstöddum fyrirtækjum og selja eða ofur arður úr kvótakerfinu skall á veikbyrgðum ströndum hagkerfisins.

Þóknanir æðstu starfsmanna fjármálafyrirtækjanna hækkuðu takmarkalítið, eitt apaði eftir öðru. Þetta spurðist hratt út og upphófst alsherjar uppstokkun á launum yfirmanna fyrirtækja og stofnana sambærileg því sem tíðkaðist hjá þeim sem best höfðu kjörin.

Pólitískir starfsmenn almennings – alþingismenn og sveitarstjórnarfólk – tóku snúninginn og ruddu brautina. Samanburður var ætíð notaður við það sem hæst var að finna. Þaðan kom fyrst viðkvæðið að ekki væri um launahækkun að ræða heldur leiðréttingu. Þetta varð síðan, eins og glögglega kom fram í kennaradeilunni, að afsökun fyrir óbilgirni.

Þegar sveitarfélögin voru kúguð til að samþykkja lýstu þau öll yfir því að þessa hækkun gætu þau ekki borgað. Það sagði einnig borgarstjórinn í Reykjavík en benti á ríkið sem veifaði milljörðum sem það þyrfti að finna fyrir sig. Nú eru til fjöldi starfsstétta sem hafa notað kennaralaun sem viðmið fyrir sig. Laun mín, meðan ég var á vinnumarkaði, voru iðulega beintengd launum framhaldsskólakennara. Þannig að hætt er við að þessi öfugi spírall fái framhaldslíf.

Með þessu er ég ekki að gefa í skyn að laun framhaldsskólakennara (stjórnenda) séu öfundsverð. Bara – þetta sjálfvirka metnaðarkerfi mun leiða til ófögnuðar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: