Guðmundur Ingi spurði um afnám krónu á móti krónu skerðingar. „…þurfti grimmar skerðingar…,“sagði Bjarni.
„Ég get tekið undir með háttvirtum þingmanni þegar hann segir að króna á móti krónu skerðingar séu slæmar, óheppilegar,“ sagði Bjarni fjármálaráðherra þegar hann svaraði Guðmundi Inga Kristinssyni á Alþingi í dag.
En hvað ætli sé til ráða? Bjarni sér óteljanlegar hindranir til að hægt sé að leiðrétta eða laga þetta mikla óréttlæti.
„Við höfum reyndar gert kerfisbreytingu varðandi ellilífeyrinn og höfum afnumið þennan bótaflokk,“ sagði hann en öryrkja búa enn við hörmungina.
Svo komu orðalengingar frá ráðherranum:
„Það verður hins vegar að muna þegar við ræðum þá sérstöku framfærsluuppbót sem sú skerðingarregla á við um að sögulega var hún hugsuð sem framfærsluuppbót fyrir þá sem voru í verstu stöðunni. Þetta var á sínum tíma innspýting stjórnvalda sem átti að beina sérstaklega til þeirra sem voru í veikustu stöðunni. Til að hún myndi ekki dreifast til allra, líka til þeirra sem voru með atvinnutekjur eða aðra framfærslu, þurfti grimmar skerðingar og þær heita í daglegri umræðu króna á móti krónu skerðing. Ef við hefðum ekki haft krónu á móti krónu skerðingu þegar sérstaka framfærsluuppbótin var sköpuð á sínum tíma, það var löngu fyrir mína tíð í ríkisstjórn, hefðu fjármunirnir ekki nýst þeim sem voru í veikustu stöðunni. Þetta verða menn að muna.“