Fréttir

Fjármálaráðherra áhyggjulaus af tekjutapi vegna lægri veiðigjalda

By Miðjan

April 29, 2014

„Nú hefur verið dreift hér á Alþingi frumvarpi um breytingar á lögum um veiðigjöld. Af því má ráða að í kjölfar þeirra misráðnu breytinga sem gerðar voru hér í sumar og fólu í sér lækkun veiðigjaldsins þá sé áfram hægt að búast við því að veiðigjaldið lækki á þessu ári og næsta, um milljarð á þessu ári og 1,8 á næsta ári.“

Þannig hóf Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, ræðu á Alþingi í gær.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra svaraði og sagði: „Ég hef í sjálfu sér ekki stórkostlegar áhyggjur af því tekjutapi sem verður vegna verri afkomu útgerðarinnar strax á næsta ári. Höfum í huga að einn til tveir milljarðar eru langt innan við eitt prósent af tekjum ríkisins. Þó er slæmt fyrir þjóðarbúið í heild sinni þegar afkoman í greininni er að versna. Við þurfum þá að horfa til annarra greina og annarra þátta til að vinna upp tekjutapið.“

Árni Páll vildi einmitt fá svör við hvernig ráðherrann hyggðist bregðast við áhrifum lækkandi veiðigjalda á ríkisfjármálaáætlun.

„Er í fyrsta lagi ekki ráð að leggja gjald á nýjar tegundir, upphafsgjald í makríl, að leggja gjald á veiðar á tegundum sem ekki hafa áður verið hluti af hlutdeildarkerfinu en koma nú nýjar inn? Fyrir því eru rík efnisleg rök að gera það og þannig gæti verið hægt að fá tekjur sem gætu brúað þetta bil og jafnvel gert betur en það. Og er ekki ástæða til þess að hugsa upp á nýtt þá stefnumörkun sem ríkisstjórnin hófst handa um, að lækka veiðigjöldin á þá sem best geta staðið undir þeim, í ljósi þeirrar nýju aðferðafræði sem nú er lagt upp með? Nú er verið að gefa okkur tækifæri til að leggja gjöldin á þannig að þau endurspegli betur afkomu í einstaka veiðiflokkum. Er þá ekki ástæða til að hugsa upp á nýtt hvernig við leggjum gjöldin á að öðru leyti,“ sagði Árni Páll.

 Fyrri ríkisstjórn var út á túni

Þessu svaraði Bjarni og sagði: „Það er að koma betur og betur í ljós, nú þegar við förum að nýju yfir álagningu veiðigjalda og höfum þróað betri tæki til að dreifa því í einhverju samræmi við það hvernig afkoman er í einstökum tegundum, hversu langt fyrrverandi ríkisstjórn var úti á túni í álagningu gjaldsins á síðasta kjörtímabili, algerlega úti á túni. Það var boðað að á árunum 2013, 2014, 2015, 2016 mundu gjöldin liggja á bilinu 18–20 milljarðar. Nú er öllum ljóst að gjaldið eins og það var í fyrra mundi ekki geta gilt á næsta fiskveiðiári án þess að það hefði í för með sér verulega auknar byrðar.“

Og ráðherra hélt áfram og sagði: „Staðreyndin er sú að útgerðin er eina starfsemin í landinu sem greiðir þetta sérstaka gjald. Því ber að fagna að við séum nú í fyrsta sinn komin með tæki til að dreifa álagningu gjaldsins í einhverju samræmi við afkomuna hjá útgerðinni sjálfri, sem sagt eftir tegundum.“

 Samfylkingin vill markaðsviðskipti

Árni Páll Árnason sagði vilja Samfylkingarinnar vera þann að veiðigjöld verði lögð á í frjálsum viðskiptum á markaði, hann sagi það bestu leiðina til að verðlagningin á veiðiheimildunum ráði gjaldinu sem útgerðin greiðir á hverjum tíma. „Þá er tryggt að þjóðin deili kjörum með sjávarútveginum og kannski skynsamlegra að fara markaðsleiðina að þessu leyti frekar en leið stjórnvaldsákvarðana.“

Og hann hélt áfram og sagði: „Hitt er rétt að muna að árið 2012 var mesta árangursár í sjávarútvegi í íslenskri sögu þrátt fyrir aðgerðir síðustu ríkisstjórnar. Rétt er að hafa í huga, áður en menn fara að endurskrifa söguna, til að réttlæta lækkun á auðlindagjöldum, sem auðvitað er eðlilegt að grein greiði sem hefur ókeypis aðgang að auðlindum, að full efnisleg rök voru fyrir álagningu þessara gjalda. En eftir stendur núna:  Hvað með gjald á makríl? Af hverju ekki að leggja gjald á upphafsúthlutunina á makríl?“

Létu tækifærin sigla framhjá

Bjarni Benediktsson hafði ýmislegt við orð Árna Páls að athuga og sagði spurninguna sem Árni Páll verðu að svara, vera þá hvers vegna fyrri ríkisstjórn lagði ekki þetta gjald á úthlutun makrílsins. „Hún lét það tækifæri fram hjá sér sigla þegar makríl var úthlutað til útgerðarinnar án gjaldtöku.“ „…hvers vegna það var ekki gert á þeim tíma.“ Bjarni sagði það ekki vera á stefnuskrá núverandi ríkisstjórnar að hefja slíka gjaldtöku. „Hins vegar hefur okkur verið þeim mun meira í mun að sú gjaldtaka sem ríkið tekur til sín vegna aflaheimilda sé í einhverjum tengslum við afkomuna í viðkomandi veiðum.“