- Advertisement -

Fjármálakerfið stendur á veikum fótum

Marinó G. Njálsson:

Það er illa rekið fyrirtæki, sem hefur þá einu lausn, að auka byrðar þeirra sem hafa fáa kosti og eru neyddir til að eiga viðskipti við það.

Þegar nálgast áramót, þá eiga það til að birtast alls konar fregnir um hvað hitt og þetta fyrirtæki stóð sig vel á árinu sem er að líða. Sum fá meira að segja „heilbrigðisvottorð.“

Í gamla daga, þegar ég var í farandsölu, þá hafði ég það eitt markmið, að vera velkominn aftur, þar sem ég hafði verið. Mér finnst sem mörg fyrirtæki hafi ekki þessa hugsun hjá sér. Að viðskiptavinirnir séu í viðskiptum við fyrirtækin, vegna þess að þeim líður vel með að eiga þessi viðskipti. Að þeir hugsi: „Þetta var svo góð þjónusta/verð, að ég mun örugglega koma hingað aftur.“

Ég er því ekki sammála þeirri niðurstöðu að íslenskt fjármálakerfi standi sterkt. Það stendur að mínu mati mjög veikum fótum, vegna þess að stór hluti viðskiptavina þeirra eru að kikna undan þeim byrðum sem fjármálafyrirtækin leggja á þá. Vegna fákeppni á markaði, þá geta fyrirtækin hins vegar hækkað vexti sína um 100-300% á stuttum tíma og viðskiptavinir þeirra eiga ekkert val. Hinn kosturinn er að fara í vanskil, lenda inni á borði innheimtufyrirtækja, standa frammi fyrir nauðungarsölu og jafnvel missa húsnæðis sitt fyrir nánast ekki neitt, þrátt fyrir lög um annað.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Fyrirtæki sem standa vel, stíga ölduna með viðskiptavinum sínum, en láta þá ekki taka allan brimsjóinn á sig. Fyrirtæki sem standa vel, eru undirbúin og með úrræði, en fjúka ekki undan vindinum og láta viðskiptavini sína bera tjónið. Það er illa rekið fyrirtæki, sem hefur þá einu lausn, að auka byrðar þeirra sem hafa fáa kosti og eru neyddir til að eiga viðskipti við það.

Greinina birti Marinó á eigin Facebooksíðu. Greinin er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: