- Advertisement -

Fjármálaáætlun: Við þurfum að hafa áhyggjur ef fólkið mun vilja hærri laun

Launahlutfall ríkisins má ekki hækka endalaust.

„Ég verð að lýsa mig algerlega ósammála því að í þessari fjármálaáætlun sé ekkert að finna sem geti stutt við kjarasamningagerð. Þvert á móti er það minn málflutningur hér í dag að í áætluninni sé að finna aðgerðir í framhaldi af öðrum aðgerðum sem þegar hefur verið gripið til. Ég nefni þar hækkun atvinnuleysistrygginga, atvinnuleysisbóta. Ég nefni sérstaka hækkun persónuafsláttar. Ég nefni hækkun barnabóta sem tók gildi um síðastliðin áramót,“ sagði Bjarni Benediktsson þegar hann svaraði Oddnýju Harðardóttur, á Alþingi, í umræðum um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.

„Hér erum við að bæta við fæðingarorlofinu. Við erum að hlusta eftir aðgerðum um stofnstyrki. Við erum með í gangi vinnu í húsnæðismálum og við erum sömuleiðis að lækka skatta. Það er ágætt að háttvirtur þingmaður skuli nefna hjúkrunarfræðinga sérstaklega til sögunnar vegna þess að mér hefur þótt sem málflutningur hennar og flokks hennar hafi snúist um það að þar værum við með dæmi um fólk sem þyrfti ekki skattalækkun. En síðan er komið hingað upp og sagt: Ja, nú verður þetta fólk að fara að koma og semja um sín kjör. Við þurfum að hafa áhyggjur af því að þetta fólk muni vilja hærri laun. Sama hvort við lækkum skattana eða hækkum launin, málið snýst um að auka ráðstöfunartekjurnar. Skattalækkunartillögur okkar eru einmitt til þess fallnar og ættu þess vegna að greiða fyrir kjarasamningagerð.“

Bjarni sagði að sér þætti Oddný vera komna langt fram úr sér þegar hún leiddi fram þá niðurstöðu að tilteknar kvennastéttir eða aðrir hópar opinberra starfsmanna þurfi að hafa áhyggjur.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Við erum einfaldlega að segja í þessari fjármálaáætlun: Við getum ekki leyft launahlutfalli ríkisins, sem hlutfalli af heildartekjum, að vaxa stanslaust fram í tímann. Og hverju munar það? Ef laun ríkisins fara úr um 24% af heildartekjum upp í 26% á lokaári áætlunartímabilsins munar það 20 milljörðum í viðbótarútgjöldum. Ef við náum hins vegar að halda launahlutfallinu u.þ.b. á sama stað, t.d. með því að innleiða í opinbera þjónustu, eins og þessi ríkisstjórn vill gera, stafræna þjónustu, hafa stafræn samskipti meginsamskiptaleiðina,  getum við hagrætt í opinberum rekstri. Já, það getur mögulega leitt til þess að við þurfum ekki, svo dæmi sé tekið, að hafa jafn marga starfandi við þinglýsingar, við gætum gert það rafrænt.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: