- Advertisement -

Fjármálaáætlun Bjarna er núll og nix

„Ég hef skömm á stjórnvöldum sem geta ekki axlað ábyrgð og sem geta ekki viðurkennt að þeim hefur mistekist.“

Inga Sæland.

„Fjármálaáætlunin sem hér er til umræðu er núll og nix. Hún kemur í engu til móts við þá örbirgð sem nú er fyrir augum í samfélaginu, í engu. Ekki nóg með það. Ég sat fjárlaganefndarfund í morgun sællar minningar, og mér leið alveg eins og ég veit ekki hvað,“ sagði Inga Sæland á Alþingi. Verið var að ræða fjármálaáætlun Bjarna Benediktssonar.

„Það er meira að segja talað um jafnvægi í rekstri sveitarfélaga. Hvað er það? Er verið að bera fölsk gögn á borð fyrir okkur, einhver eldgömul gögn sem eru löngu úrelt? Við erum að horfa á það hér að hér eru sveitarfélög við það að verða gjaldþrota, ekki bara Árborg, ekki bara Reykjavík. Það er farið að halla undan fæti í Garðabæ og víðs vegar úti um landið. Og hvers vegna? Hvað gerir ríkisstjórnin í því? Jú, hún hrúgar verkefnum á sveitarfélögin. Það er allt í lagi að hrúga verkefnum á sveitarfélögin en að fjármagn fylgi þeim skuldbindingum sem þeim er ætlað að taka á sig — nei, það er hins vegar af skornum skammti,“ sagði Inga.

„Ég segi fyrir mig: Gjáin á milli þeirra ríku og fátæku er einungis að breikka. Hún er einungis að dýpka. Á sama tíma hefur karfan úti í búð hækkað á bilinu 15–100%, eða ég veit ekki hvað, það fer eftir því hversu gráðugir þeir eru í að verðleggja vöruna sína núna — í mörgum tilvikum er því miður verið að nýta sér þetta ömurlega ástand og hækka aðföngin mun meira en efni standa til miðað við þá verðbólgu sem er í gangi. En talandi um kaupmátt og monta sig af því — hugsið ykkur. Ríkisstjórnin segir: Við erum búin að bæta í barnabæturnar. Við erum búin að bæta í húsnæðisstuðninginn, við komum hingað með 3,5% í almannatryggingarnar í fyrrasumar. En á sama tíma, nú síðustu sex árin, hefur fátækt íslenskra barna vaxið um heil 44% í boði þessarar ríkisstjórnar. Hvernig getur nokkur einasti kjörinn fulltrúi staðið hér í þessum ræðustóli og reynt að telja fátæku fólki trú um að það hafi það gott og hér drjúpi smjör af hverju strái? Það eru hrein ósannindi fyrir þann hluta samfélagsins sem er skilinn eftir í mekki. Ég hef skömm á stjórnvöldum sem geta ekki axlað ábyrgð og sem geta ekki viðurkennt að þeim hefur mistekist. Þeim hefur gjörsamlega mistekist að standa vörð um samfélagið eins og þeim ber skylda til að gera. Það er þeirra að verja samfélagið þeim ágjöfum sem við erum að takast á við núna. Það er ekki seðlabankastjóra að hækka stýrivexti tólf sinnum í röð af því að það er enginn hér í brúnni með honum til að axla ábyrgð.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Frú forseti. Ég er ekki einu sinni búin með einn tíunda af ræðunni. Ég hefði þurft tíu tíma í viðbót en ég læt gott heita. Ég gef þessari fjármálaáætlun sem sagt 0,0,“ sagði Inga Sæland.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: