Alþingi:
„Ég ætla ekki að hirða um að elta ólar við háttvirtum þingmanni Birgi Þórarinsson en get hins vegar fullvissað hann um það að Samfylkingin stendur a.m.k. ekki með þeim áherslum gagnvart almenningi sem komu fram í fjárlagafrumvarpinu. Það er ömurlegt að þurfa hér í síðustu störfum þingsins á þessu ári að þurfa að lýsa vonbrigðum með afrakstur haustsins,“ sagði Logi Einarsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, og svaraði þannig Birgi Þórarinssyni. Sjá fréittina á undan þessari.
„Það hafa vissulega verið hérna góð mál, komið hefur verið til móts við Grindvíkinga af fullum krafti, sveitarfélög fá aukið fé inn í málefni fatlaðra og það er komið á móts við bændur. Allt er þetta gott en við lestur fjárlaga er eins og ríkisstjórnin telji að íslenska meðalheimilið svífi um á einhverju rósrauðu skýi. Svo er ekki, herra forseti.
Í 8% verðbólgu með 9,25% stýrivexti búa þúsundir heimila sig nú undir það að mæta mjög hörðum vetri og jafnvel árum. Í sumum tilfellum mun greiðslubyrði á íbúðalánum hækka tvöfalt, þrefalt á við það sem nú er. Og hvernig bregst ríkisstjórnin við því? Jú, með því að skutla 5.000 heimilum út úr vaxtabótakerfinu og með því að leyfa barnabótum og húsnæðisbótum að lækka að raunvirði. Nú er það þekkt, herra forseti, að magn er ekki það sama og gæði og látum það nú algjörlega vera þó að ríkisstjórnin komi inn með fá stjórnarmál. En að aðalmál ríkisstjórnarinnar, fjárlög, séu svo gersneydd skilningi á stöðu almennings í landinu er auðvitað bara forkastanlegt,“ sagði Logi Einarsson.