Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir sparar sig hvergi í gagnrýni á fjárhagsstjórn borgarinnar.
„…fjárhagur hennar er svo gott sem að þrotum kominn,“ skrifar dómsmálaráðherrann í Mogga dagsins.
„Þrátt fyrir góðæri síðustu ára hafa skuldir borgarinnar aukist um tæp 85% að nafnvirði og eigið fé borgarinnar er innan við 20%. Aftur á móti jukust skatttekjur borgarinnar um 48% umfram verðlag á árunum 2012-2018 enda er útsvar í hámarki og fasteignaskattar háir. Ef Reykjavíkurborg væri heimilisbókhald væri rekstur heimilisins í járnum og yfirdrátturinn fullnýttur þrátt fyrir að heimilismenn hefðu fengið launahækkanir síðustu ár. Ekkert má út af bera í slíkri stöðu og þegar flest heimilistækin eyðileggjast á sama tíma er ekkert eftir aflögu. Því miður bendir fátt til þess að fjárhagur Reykjavíkurborgar batni á næstu árum.“
„Flest af stærri sveitarfélögum landsins hafa bætt stöðu sína verulega á liðnum árum og það hefur ríkissjóður einnig gert. Reykjavíkurborg sker sig úr hvað rekstur varðar en ósjálfbær rekstur borgarinnar hefur neikvæð áhrif á daglegt líf borgarbúa til lengri tíma. Það kemur alltaf að skuldadögum og í tilfelli borgarinnar koma áhrifin fyrst og fremst fram í verri þjónustu við borgarbúa. Það er mikil ábyrgð fólgin í því að reka sveitarfélag enda byggjast lífsgæði íbúanna á því að vel sé haldið á málum,“ skrifar Áslaug Arna.