Byggingar:
Sigurður Sigurðsson byggingarverkfræðingur skrifar eftirtektarverða grein í Moggann í dag. Hann rekur vandann í byggingum og hvers vont er að hafa ekki lengur Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins. Sem kunnugt er var hún færð í Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Sem síðan var af óskiljanlegum ástæðu aflögð með öllu innihaldi. Þar á meðal byggingarannsóknum.
„Í fyrirlestri um mögulegar leiðir til að minnka kostnað við að gera við rakaskemmdir í húsum þar sem mygla hefur grafið um sig kom fram að fjöldi slíkra mála orsakast af hreinu fúski, vanþekkingu eða hvoru tveggja,“ segir í grein Sigurðar.
„Oft er staðan þannig í baðherbergjum með rakaskemmdum að baðherbergin eru byggð rangt frá upphafi þannig að eftir á er engin leið að gera við rakaskemmdirnar nema rífa allt baðherbergið upp og byrja aftur frá grunni. Aðferðin til að lækka kostnað vegna þessara vandamála er auðvitað að byggja húsin rétt frá grunni. Þetta er staðan bæði í nýjum og gömlum húsum í dag og var þessi sérstaki og vandaði fyrirlestur um þetta mál enda erum við stödd í yfirstandandi tjóni á fjölda húsa í bænum vegna rangra byggingaraðferða. Fjárhagslegi skaðinn og heilsuspillandi afleiðingarnar eru gríðarlegar í samfélaginu. Nú hefði verið gott að eiga Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins til að taka á málinu,“ skrifaði Sigurður.
„Það er nokkuð ljóst að húsnæðiskaupendum er ekki bent á þegar hús eru haldin þessum vandræðum. Að greiða um eða yfir 100 milljónir fyrir hús eða íbúð með ágalla rakaskemmda og vandamál vegna kuldabrúa er mikið ábyrgðarleysi. Fólk situr einfaldlega uppi með svarta-pétur og getur ekkert gert til að fá bætur. Ólíklegt er að dómstólar dæmi fólki í hag sem hefur álpast til að kaupa svona hús. Lögin eru mjög hörð gagnvart kaupendum húsnæðis hvað viðkemur gallamálum fasteigna. Með Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins glataðist vettvangur þar sem fólk gat komið og fengið ráðgjöf um svona vandamál og jafnvel fengið mann á staðinn frá þeim ef ástæða var til. Nú er það allt horfið,“ segir í grein Sigurðar.
„Algengustu leka- og rakavandamálin í húsum eru því vegna flatra þaka og þéttinga meðfram gluggum og hurðum útveggja. Samkvæmt hinum nýju fyrirlestrum eru rakaskemmdirnar einnig vegna vanþekkingar og fúsks við byggingu auk þess sem íslenski útveggurinn stenst ekki ákvæði byggingarreglugerðar.
Gott væri nú að hafa Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins til að taka á þessu máli með viðeigandi ráðuneyti eða HMS og afgreiða þetta í eitt skipti fyrir öll. Setja þarf skýrari og harðari reglur með rafrænu eftirliti um hvernig byggja má hús á Íslandi þannig að þau leki ekki, séu ekki með rakaskemmdir og myglu og að fúsk og vanþekking séu ekki látin grassera í byggingarframkvæmdum.
Regluverkið er fyrir hendi þar sem eru ákvæði um sviptingu réttinda, verkstöðvun eða fangelsi þeirra sem brjóta þessar reglur. Það þarf bara að gera reglurnar skilvirkari og framkvæma viðurlög á staðnum.“