- Advertisement -

Fjárfestingarleið Seðlabankans verði rannsökuð

Þingmenn Pírata hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um að fjárfestingarleið Seðlabankans verði rannsökuð.

Þingmennirnir vila leggja áherslu á að rannsóknin leiði í ljós hvaða fjármagn var flutt til landsins með fjárfestingarleiðinni, umfang gjaldeyrisútboðanna, hverjir voru þátttakendur í fjárfestingarleiðinni, m.a. fjölda þeirra og hvort um var að ræða innlenda eða erlenda aðila, hvaða einstaklingar eða félög tóku þátt og hvernig var háttað um eignarhald félaganna, hvaðan hinn erlendi gjaldeyrir kom, hvaða fjárhæðir um ræddi og hvaða fjárfestingar var ráðist í vegna þátttöku í fjárfestingarleiðinni. Jafnframt verði rannsóknarnefndinni falið að meta þau áhrif sem fjárfestingar fyrir tilstilli fjárfestingarleiðarinnar hafi haft á íslenskt efnahagslíf.

Þau benda á að lög um rannsóknarnefndir geri ráð fyrir að Alþingi geti látið fara fram rannsókn á mikilvægu máli sem varðar almenning. „Mikilvægi máls þessa felst í því að upplýsa um framkvæmd fjárfestingarleiðar Seðlabanka Íslands, sem var liður í losun gjaldeyrishafta hérlendis. Fjárfestingarleiðin hefur verið gagnrýnd af ýmsum ástæðum, en telja verður sérstaklega mikilvægt í ljósi umræðu um aflandseignir og skattaundanskot á síðustu misserum að leitast verði við að rannsaka og fjalla um hvort fjárfestingarleiðin hafi stuðlað að því að fjármagn vegna skattaundanskota, sem geymt var í skjóli á aflandseyjum, hafi verið fært til landsins í gegnum fjárfestingarleiðina með afslætti,“ segir í greinagerðinni.

Flutningsmenn eru: Einar Brynjólfsson, Oktavía Hrund Jónsdóttir, Halldóra Mogensen, Birgitta Jónsdóttir, Jón Þór Ólafsson, Ásta Guðrún Helgadóttir, Björn Leví Gunnarsson, Gunnar I. Guðmundsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Gunnar Hrafn Jónsson.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hér er hægt að lesa tillöguna í heild sinni.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: