Fjárfestingar bankanna að ná fyrri hæðum
- vilji nokkurra þingmanna stendur til að skilið verði á milli viðskiptabanka og fjárfestingarbanka með lögum.
Fjárfestingarbankastarfsemi íslensku bankanna féll úr þrjátúu prósentum, af heildarstarfsemi, niður í fimm prósent í hruninu. Hlutfallið fer vaxandi á ný og var árið 2013 á bilinu fjórtán til 25 prósent. Fer eftir hvaða mælikvarði er notaður.
Þetta má lesa í greinagerð með þingsályktunartillögu nokkurra þingmanna um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. „Flutningsmenn tillögunnar líta svo á að ekki megi dragast lengur að breyta lagaumhverfi fjármálafyrirtækja hér á landi þannig að hefðbundin viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi verði aðskilin til fulls.“
Sparifé verði ekki notað í áhættu
Þá er og sagt mikilvægt að hafa leikreglurnar, á fjármálamarkaði, þannig að tryggt verði að ekki verði hægt að misnota innstæður sparifjáreigenda í áhættusamar fjárfestingar. Reynslan er sögð ólygnust og og nauðsynlegt sé fyrir skattgreiðendur, ríkissjóð og sparifjáreigendur að tryggt verði með lögum að framvegis verði ekki tekin fráleit áhætta með peninga af innlánsreikningum og að innstæður venjulegra viðskiptamanna bankanna verði tryggðar og forgangskröfur í þrotabú þeirra ef þeir verða gjaldþrota.
„Þegar horft er til fyrirætlana stjórnvalda um að selja þá banka sem eru í eigu ríkisins að hluta eða í heild á næstu árum er þetta verkefni orðið enn brýnna en ella en mikilvægt er að endurskoðun fjármálakerfisins fari fram áður en ráðist verður í slíka sölu,“ segir í greinagerðinni.
Ekki ríkisábyrgð á braskinu
Þá er talað um nauðsyn þess að áhættusömustu bankaviðskiptin séu ekki með óbeinni ríkisábyrgð sem valdið geti skattgreiðendum og venjulegum sparifjáreigendum miklu tjóni benda flutningsmenn á að smæð fjármálamarkaðarins fylgi meiri áhætta enda geti stórir fjárfestar og einstakir atburðir haft gríðarleg áhrif í litlu bankakerfi og valdið miklu tjóni. Þá er ljóst að samkeppnisstaða þeirra sem stunda hreina fjárfestingarbankastarfsemi hér á landi er skert miðað við fjármálafyrirtæki sem geta nýtt tryggð og ódýr innlán frá almenningi til að fjármagna áhættusama fjárfestingarbankastarfsemi.
Flutningsmenn tillögunnar, sem hefur verið flutt áður, eru; Katrín Jakobsdóttir, Svandís Svavarsdóttir, Birgitta Jónsdóttir, Eygló Harðardóttir, Logi Einarsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Smári McCarthy, Oddný G. Harðardóttir, Einar Brynjólfsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Viktor Orri Valgarðsson, Guðjón S. Brjánsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.
-sme