Fjárfestar fá aukinn skattafslátt og reglur verða rýmkaðar
Slakað verður á kröfum sem nú þarf að uppfylla. Bjarni segir breytingarnar hvetja til meiri fjárfestinga.
Bjarni Benediktsson hefur lagt fram frumvarp þar sem slakað verður á kröfum til skattaafsláttar vegna kaupa á hlutabréfum.
„Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á skattalögum í tengslum við annars vegar skattfrádrátt vegna hlutabréfakaupa og hins vegar skattfrádrátt nýsköpunarfyrirtækja,“ sagði hann í framsögu um lagafrumvarpið.
„Í fyrsta lagi varðandi hlutabréfakaupin ber að nefna tillögu til breytinga á ákvæðum tekjuskattslaga er varða skattafslátt vegna hlutabréfakaupa í formi frádráttar frá tekjuskattsstofni í því skyni að hvetja til frekari nýtingar einstaklinga á þessari skattalegu ívilnun og framlengja gildistíma hennar,“ sagði hann.
Að óbreyttu falla lögin úr gildi um áramótin. Fjárfestum er því eflaust mikið í mun að Alþingi framlengi gildistímann fyrir áramót. Það ætar Bjarni að gera og slaka einnig á kröfunum.
Bjarni kynnti breytingarnar sem verða og sagði: „Þeim skilyrðum sem einstaklingar og félög þurfa að uppfylla verður jafnframt fækkað og þau einfölduð. Hér er rétt að rifja upp að þegar við komum þessum ákvæðum í tekjuskattslögin á sínum tíma gerðum við það af ákveðinni varfærni.“
Og svo síðar sagði hann: „Nú er reynslutíminn liðinn. Hér stöndum við og þetta frumvarp kveður á um að við framlengjum og slökum aðeins á þessum skilyrðum. Gert er ráð fyrir því að einstaklingur og félag sem hann hyggst fjárfesta í vegna hlutafjáraukningar þurfi ekki lengur að uppfylla þau skilyrði sem varða annars vegar tengsl einstaklingsins við félagið og hins vegar þau skilyrði sem varða félagið sjálft og starfsemi þess eftir að hlutafjáraukning félagsins hefur átt sér stað. Að einstaklingur og viðkomandi félag þurfi samkvæmt núgildandi lögum að halda áfram að uppfylla skilyrðin í tiltekinn tíma eftir hlutafjáraukningu félagsins er talið draga úr hvata einstaklinga til að nýta sér frádráttinn.“
Og breytingarnar verða fleiri: „Þá er jafnframt lagt til að fækka skilyrðum laganna sem lúta að einstaklingi sem hyggst nýta sér frádráttinn með því að fella brott skilyrðið um að hann megi ekki vera starfsmaður félags sem hann hyggst fjárfesta í við hlutafjáraukningu þess. Tillaga þessi ætti að hafa í för með sér jákvæð áhrif á kaup starfsmanna í hlutafélagi sem þeir starfa hjá og um leið hvetja til betri frammistöðu og aukinnar framleiðni hjá viðkomandi fyrirtæki. Þessi breyting einfaldar einnig framkvæmd og eftirlit skattyfirvalda með kerfinu.“