- Advertisement -

Fjandskapur í þingsal

- Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, er ósáttur við það sem hann kallar fjandskap í garð framtaksmannsins.

 

Óli Björn Kárason.
„Fjandmenn einkarekstrar vilja miklu fremur senda sjúklinga til annarra landa en tryggja aðgengi almennings að nauðsynlegri þjónustu hér á landi.“

„Í þingsal er alið á fjandskap í garð einkarekstrar í heilbrigðiskerfinu,“ segir meðal annnars í vikulegri grein Óla Björns Kárasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og formanns efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, í Morgunblaðinu.

Það eru ekki einungis þingmenn sem Óli Björn finnur að.

„Margir fjölmiðlungar eru duglegir við að sá fræjum tortryggni og óvildar í garð þeirra sem hafa haslað sér sjálfstæðan völl í heilbrigðisþjónustu,“ skrifar hann.

Óli Björn segir góða reynslu vera af einkarekstri og það virðist litlu skipta. „Fjölbreyttari og betri þjónusta er aukaatriði, lægri kostnaður ríkisins (skattgreiðenda) er léttvægur. Stytting biðlista eftir aðgerðum er ekki aðalatriðið, heldur að komið sé í veg fyrir einkarekstur, jafnvel þótt það leiði til þjóðhagslegrar sóunar og lakari lífsgæða einstaklinga sem þurfa að bíða mánuðum saman eftir úrlausn sinna mála. Fjandmenn einkarekstrar vilja miklu fremur senda sjúklinga til annarra landa en tryggja aðgengi almennings að nauðsynlegri þjónustu hér á landi. Í stað þess að tryggja öllum landsmönnum góða og trausta heilbrigðisþjónustu er rekstrarformið mikilvægast – trúaratriði. Hinir „sanntrúuðu“ leiða aldrei hugann að mikilvægi einkarekstrar s.s. á sviði heilsugæslu, sérfræði- þjónustu, endurhæfingar og hjúkrunarheimila,“ skrifar hann.

Óli Björn segir óvild í garð einkarekinna skóla vera sama marki brennd og afleiðingar þess sé minni samkeppni og fábreyttari valkostir. „Kostnaðinn bera nemendur, kennarar og samfélagið allt.“

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: