Finnur Birgisson skrifar:
Ekki hafði verið búist við neinum átökum á aðalfundi FEB, sem haldinn verður nk. þriðjudag. En nú er komið á daginn að hópur manna hefur í grunsamlegum tilgangi lagt að því drög að taka völdin í félaginu með því að fella núverandi formann og hrifsa til sín meirihluta í stjórninni.
Fráfarandi stjórn skilar af sér góðu búi þrátt fyrir óvenjulegar aðstæður. Þótt Covidfaraldurinn hafi sett starfinu þröngar skorður tókst að halda úti töluverðri félagsstarfsemi, unnið var ötullega að hinum ýmsu hagsmunamálum eldri borgara og góður hagnaður varð af starfsemi ársins.
Á aðalfundinum skal kjósa um formann og þrjá aðalmenn í stjórn auk þriggja varamanna, en þrír af núverandi stjórnarmönnum sitja áfram. Núverandi formaður til tveggja ára, Ingibjörg H. Sverrisdóttir, sækist eftir endurkjöri og fimm þeirra sem verið hafa aðal- eða varamenn gefa kost á sér áfram. Auk þeirra eru svo þrjú ný nöfn á lista yfir frambjóðendur í stjórn.
Framan af leit út fyrir að Ingibjörg yrði ein í framboði til formanns. En um síðustu helgi, rétt áður en lokaframboðsfrestur rann út, barst hinsvegar tilkynning frá Þorkeli Sigurlaugssyni viðskiptafræðingi um framboð hans til formanns. Fljótlega eftir það fór svo að fréttast að komin væri í gang áróðursherferð, þar sem fólk er í tölvupósti hvatt til að kjósa Þorkel og auk hans þrjá nafngreinda karla úr hópi frambjóðenda, – einmitt þá sem eru nýir á listanum og sitja ekki í núverandi stjórn. Það leynir sér því ekki að markmið hópsins er að yfirtaka Félag eldri borgara.
Sérstaka athygli vekur í þessu samhengi sú staðreynd að Þorkell er inngróinn Sjálfstæðisflokksmaður sem sækist m.a. þessa dagana eftir öðru sæti á D-lista til borgarstjórnar. Með formannsframboðinu er hann því að freista þess að velta flokkssystur sinni úr sessi, því Ingibjörg er líka nátengd Sjálfstæðisflokknum. Stuðningur við hana einskorðast þó ekki við sjálfstæðismenn, því hún hefur áunnið sér virðingu og traust allra flokka fólks fyrir einarða baráttu sína fyrir málstað eldri borgara.
Óhjákvæmilega er spurt hvernig standi á þessari aðför að formanni og stjórn FEB. Óljóst er hvað nýja „formannsefninu“ og liði hans gengur til, því enginn þeirra hefur hingað til látið til sín taka í starfi félagsins. Ekkert virðist heldur benda til þess að aðgerðin sé runnin undan rótum forystu Sjálfstæðisflokksins. Sterkar vísbendingar eru hinsvegar um að aðförin sé að undirlagi tiltekinna hagsmunaaðila í því skyni að sölsa undir sig ferðaþáttinn í starfsemi FEB, en félagið hefur jafnan staðið fyrir fjölda hópferða eldri borgara bæði innanlands og erlendis.
Nk. þriðjudag kemur í ljós hver afdrif þessarar yfirtökutilraunar verða. Óskandi er að hún renni einfaldlega út í sandinn með því að aðalfundurinn endurnýi umboð Ingibjargar formanns og þeirra núverandi stjórnarmanna sem gefa kost á sér til áframhaldandi stjórnarstarfa.