Sprengisandur Þóroddur Bjarnason, stjórnarformaður Byggðastofnunar og félagsfræðiprófessor við Háskólann á Akureyri, sagði í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni í gær, að færsla starfsemi á landsbyggðina hefði verið á stefnuskrá ríkisstjórna langt aftur í tímann. Hann ítrekaði jafnframt að í núverandi stjórnarsáttmála væri sérstaklega talað um þá stefnu og breið samstaða hefði verið meðal flokka um byggðaáætlun fyrir árin 2014-2017.
Þá var rætt um fyrirhugaðan flutning Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar. Þóroddur sagði með flutningnum myndi staða Akureyrar og miðnorðurlands styrkjast, en flutningurinn væri ekki liður í vörn þeirra byggða þar sem byggðavandi er.
Þóroddur sagði að bjartsýnt væri að ætla sér að fólk myndi flytja í stórum stíl milli landshluta. Algengara væri að fólk skipti um störf til þess að vera nær heimilinu heldur en að flytja heimilið nær starfinu.
Hann sagði stóru pólitísku spurninguna vera hvort markmiðið væri að byggja upp fleiri sterka byggðakjarna á landsbyggðinni eða ekki. Hann sagðist telja að færslan myndi styrkja bæði Akureyri og Miðnorðurland í heild sinni.