- Advertisement -

Finnum siðblindan ofbeldismann

Hún er gríðarlegt offramboð af rándýrum blokkaríbúðum í miðbæ Reykjavíkur og nágrenni hans.

Gunnar Smári skrifar:

Hinn svokallaði markaður gekkst undir próf eftir Hrun (sem var annað próf, sem hinn svokallað markaður kolféll á). Prófið eftir Hrun fólst í því að honum, hinum svokallaða markaði, var falið að leysa húsnæðisvanda almennings án afskipta ríkisvaldsins og án þess að félagsleg úrræði væru að þvælast á nokkurn hátt fyrir. Stjórnvöld gættu að því, gripu ekki til neinna aðgerða sem reynst höfðu öðrum þjóðum vel og Íslendingum sjálfum í fortíðinni. Prófið fólst í að þúsundir láglaunafólks, eftirlaunafólks, námsmanna og öryrkja voru að sligast undan sífellt hækkandi húsaleigu, ungt fólk réð hvorki við að leigja né að kaupa, innflytjendur fengu hvergi boðleg húsnæði og fluttu inn í iðnaðarhverfin, í eitt herbergi, oft mörg saman á örfáum fermetrum, íbúðafélag öryrkja lokaði fyrir umsóknir og þar fram eftir götunum.

Þetta var versta húsnæðiskreppa sem landsmenn höfðu séð frá stríðslokum; meginástæða fyrir versnandi kjörum verkafólks og fátækragildra fyrir þúsundir, tug þúsundir fjölskyldna. Eftir að hafa legið yfir þessu prófi í mörg ár hefur hinn svokallaði markaður skilað sinni prófúrlausn. Hún er gríðarlegt offramboð af rándýrum blokkaríbúðum í miðbæ Reykjavíkur og nágrenni hans, íbúðum fyrir fólk sem er ekki til; sterkefnað fólk sem vill búa í blokk og greiða fyrir það morðfjár.

Enn hefur hinn svokallaði markaður fallið á prófinu. Samt er til fólk sem vill fela þessum svokallaða markaði að reka skólana, heilbrigðiskerfið, vegina, lyfjasöluna, flugvellina og jafnvel bankana, sem ríkið hefur ný reist við eftir að hinn svokallaði markaður keyrði þá í þrot með hvelli sem heyrðist um allan heim.

Að leggja til að fela hinum svokallaða markaði nokkurt verk er eins og að segja: Eigum við ekki að finna einhvern sturlaðan fávita, einhvern siðblindan ofbeldismann, alvarlega vitgrannan kæruleysingja og idjót til að stjórna þessu fyrir okkur? Er það ekki einmitt týpan sem mun ramba niður á bestu lausnina fyrir okkur öll?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: