Samfélag „Hvort sem um er að kenna rigningartíð á Suðvesturhorninu eða öðrum þáttum virðist brúnin á landanum hafa þyngst nokkuð að nýju í júlímánuði eftir aukna bjartsýni í júní. Þetta sýnir nýjasta mæling Væntingavísitölu Gallup (VVG), en vísitalan lækkaði um 17 stig í júlí og mælist nú 85,2 stig. Hún er þar með að nýju nokkuð undir þeim 100 stigum sem marka jafnvægi milli bjartsýni og svartsýni neytenda á stöðu og horfur í efnahags- og atvinnumálum. Lækkunin nú kemur þrátt fyrir fjölmörg teikn um að hagur landsmanna fari almennt batnandi og efnahagshorfur séu allgóðar fyrir næstu misserin. Í júní síðastliðnum fór VVG yfir 100 stiga markið, og náði raunar sínu hæsta gildi frá hruní í 101,8 stigi. Fram að júnímánuði hafði VVG hins vegar að meðaltali mælst 85 stig, og er mælingin nú því í samræmi við stemmningu landsmanna mestan hluta ársins fram til þessa.“ Þetta segir í greiningu Íslandsbanka.
Allar undirvísitölur VVG lækkuðu í júlí frá fyrri mánuði, hvort sem litið er til væntinga um efnahagslífið eða atvinnuástand og horft til núverandi aðstæðna eða væntinga til næstu sex mánðaa. Var lækkun þeirra á bilinu 16 – 22 stig. Lýðfræðileg greining svara sýnir einnig að langflestir hópar neytenda hafa minni væntingar í júlí en júlí, að undanskildum yngstu svarendunum og þeim neytendum sem lægstar hafa tekjurnar, en þar er auðvitað að stórum hluta um einn og sama hóp að ræða.
Síðsumarlækkun líkt og í fyrra
Lækkun VVG nú er athyglisverð, sér í lagi þar sem sambærileg sveifla varð í vísitölunni yfir sumarmánuðina í fyrra. Þá hækkaði VVG snarpt í maí, hélst rétt yfir 100 stigum í júní en lækkaði svo verulega í júlí og ágúst. Árin á undan er hins vegar ekki hægt að greina slíka sveiflu á þessu tímabili. Í fyrrasumar veltum við því fyrir okkur hvort sveiflan á VVG stæði í sambandi við kosningaloforð og efndir í tengslum við alþingiskosningar, enda má greina svipaðar hreyfingar í vísitölunni í kring um fyrri alþingiskosningar. Þessi skýring er hins vegar ekki fyrir hendi nú.
Þá er varla hægt að skýra niðursveifluna í VVG með vísbendingum úr hagvísum um þróun efnahags- og atvinnumála. Þeir bera flestir vott um batnandi hag íslenskra neytenda þessa dagana. Þannig hafði kaupmáttur launa aukist um 3,1% á milli ára í júnímánuði síðastliðnum samkvæmt tölum Hagstofunnar, og skráð atvinnuleysi hjá Vinnumálastofnun mældist þá 3,2%, sem jafngildir 0,7 prósentu lækkun milli ára. Þá nam raunaukning kortaveltu einstaklinga 5,1% á 2. ársfjórðungi, og aðrar tölur á borð við brottfarir um Keflavíkurflugvöll og innflutning neysluvara benda til talsverðrar aukningar einkaneyslu það sem af er ári. Loks hefur krónan haldist afar stöðug undanfarna mánuði, en oft hefur verið talsverð fylgni milli sveiflna í gengi krónu og VVG.
Væntingar lækka í vætutíð
Aftur á móti er nærtækt að horfa til annars áhrifaþáttar sem þróast hefur með sama óskemmtilega hættinum þessi tvö sumur, en það er veðurfar á Suðvesturhorni landsins. Líkt og í fyrra hefur yfirstandandi júlímánuður verið með eindæmum rigningasamur í þessum landshluta og fá tækifæri gefist til að sleikja sólina á höfuðborgarsvæðinu og í næsta nágrenni. Við í Greiningu þekkjum, líkt og aðrir landsmenn, hversu mikil áhrif veðurfarið getur haft á lundina, og raunar væri áhugavert að skoða sögulega fylgni milli VVG og veðurfars þótt það bíði betri tíma að þessu sinni. Þar sem flestir þeir áhrifaþættir sem við höfum venjulega notað til skýringa á sveiflum VVG hrökkva ekki til núna teljum við því góðar líkur á að bakslagið í VVG í júlímánuði sé annars vegar að hluta aðlögun eftir snarpa hækkun mánuðinn á undan, og kunni hins vegar að skýrast af veðurfarslegum þáttum fremur en efnahagslegum.