Samfélag Löngu er vitað að það er vík á mill vina, það er fyrrum samherja Ólafs Ragnars Grímssonar forseta og hans. Svo er að sjá að fyrrum samherjar hans sjái ekki af honum úr forsetastóli.
Ólafur Ragnar og Svavar Gestsson tókust oft á innan Alþýðubandalagsins. Og ekki bara þeir. Flokksmenn, margir hverjir, skipuðu sér í fylkingar þeirra. Nú þegar Ólafur Ragnar hefur ákveðið að enda forsetatíð sína er margt um það að finna á vefnum.
ÓRG er sundrungartákn
Skrif Svavars á Facebook eru svo þessi:
„Því er haldið fram þessa daga að allir forsetar aðrir en fráfarandi hafi alltaf verið sameiningartákn. Það er ekki rétt. Sjálfstæðisflokkurinn var framan af mjög óánægður með Svein Björnsson og Ásgeir Ásgeirsson varð strax frekar forseti Alþýðuflokksins og Sjálfstæðisflokksins en Framsóknarflokksins og Sósíalistaflokksins/Alþýðubandalagsins. Kristján og Vigdís komust næst því að verða sameiningartákn þjóðarinnar. En ÓRG hefur vissulega verið fjær því en allir aðrir að vera sameiningartákn; hann er sundrungartákn. Átakakenningin sem hann þróaði fyrst í Framsóknrflokknum svo í Alþýðubandalaginu hefur enst honum vel á Bessastöðum.“
Átti ekki ómerkan þátt í hruninu
Þröstur Ólafsson hagfræðingur skipti miklu máli í hópi vinstri manna á sínum tíma. Var mótandi, til dæmis í þjóðarsáttinni og hann kynntist Óiafi Ragnari eflaust vel. Þröstur skrifar á Facebook:
„Það hæfir fyrstu færslu minni á fésbók að minnast aðeins á fyrstu frétt ársins, sem var yfirlýsing forseta íslands um að hann gæfi ekki frekari kost á sér til forsetaframboðs. Sagan á eftir að fara bæði blíðum og óblíðum höndum um ÓRG, þar sem hans flokkspólitíski ferill mun falla í skuggann, þótt þar hvíli ýmislegt skoðunarvert.Það er fróðlegt að fylgja ferli manna eins og ÓRG, hvað afstaða hans mótast sterkt af atburðarás líðandi stundar, sem ekki þarf endilega að koma á óvart. Hans samfélagslega festa var jafn traust og stöðugleiki íslensku krónunnar. Eins og nafni hans Ólafur liljurós gekk hann í björg íturfögurra héloga. Hann átti vissulega ekki ómerkan þátt í hruninu. Pólitískt listabrögð hans voru síðan að réttlæta frekari framboð sín til forseta á þeim rökum að nú þyrfti þjóðin á festu að halda til að komast út úr ólgunni. Í gullæði Chaplins vinnur sögupersónan sér inn peninga með því að taka að sér snjómokstur í raðhúsalengju og mokar alltaf yfir innganginn hjá næsta nágranna og fær því sífellt ný verkefni.“