- Advertisement -

Fimmtungs hækkun fasteignaverðs

Eignavaktin Samkvæmt tölum Þjóðskrár hefur verð á fjölbýli hækkað um 19% á síðustu 12 mánuðum og verð á sérbýli um 21,2%. Heildarhækkunin nemur 19,6%, sem er eilítið meira en í síðasta mánuði. Árshækkun sérbýlis er áfram með mesta móti miðað við síðustu ár.

Verð á fjölbýli hefur nú hækkað töluvert tvo mánuði í röð. Þó er meiri ró yfir þeim markaði en verið hefur, en engu að síður er hækkunin um 0,5% nú töluverð. 0,5% á mánuði í heilt ár gefur rúmlega 6% hækkun. Verð á sérbýli hækkar enn í svipuðum takti og verið hefur, eða um u.þ.b. 21% á ári.

Vangaveltur um mögulega kólnun á markaðnum halda væntanlega áfram. Þrátt fyrir meiri ró en á fyrri hluta ársins eru hækkanirnar nú enn miklar í sögulegu samhengi.

Sé litið á fjölda viðskipta með fjölbýli má sjá að þróunin hefur verið frekar niður á við allt frá því í nóvember. Tölur um fjölda viðskipta fyrir fjölbýli eru þannig mun lægri en fyrir ári síðan og hafa lækkað mikið síðustu mánuði. Sé litið á meðaltal júní til september hefur viðskiptum fækkað um rúm 20% frá sama tímabili í fyrra.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Sé fjöldi viðskipta yfir lengri tíma skoðaður er nokkuð ljóst að tími samfellds vaxtar milli ára er liðinn, allavega í bili. Sé meðalfjöldi viðskipta á þessu ári borinn saman við sömu stærðir á síðustu árum má sjá að dregið hefur úr viðskiptum bæði með fjölbýli og sérbýli.

Töluverð umræða hefur verið um mögulega kólnun fasteignamarkaðar eftir mun minni verðhækkanir en áður í júní og júlí. Litlar hækkanir áttu hins vegar einungis við um fjölbýli á þessum tíma; hækkanir á sérbýli voru áfram miklar. Viðskipti með fjölbýli eru hins vegar um 85% allra viðskipta með fasteignir þannig að heildarverðið ræðst mikið af þróun fjölbýlis. Tölurnar síðustu tvo mánuði eru enn töluvert háar og svo virðist sem töluvert líf sé í markaðnum og svo mun væntanlega verða áfram.

(Byggt á Hagsjá Landsbankans).


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: