- Advertisement -

Fimmtán frávísanir á BUGL bara í mars

Ófremdarástand ríkir í þjónustu við unga fíkla. Helga Vala Helgadóttir spurði Svandísi Svavarsdóttur um þetta á Alþingi í dag. Í ræðu Helgu Völu komu fram sláandi upplýsingar.

„Staðan er sú að rekin eru tvö meðferðarheimili á vegum Barnaverndarstofu sem samtals rúma 10 einstaklinga. Á barna- og unglingageðdeild eru sex rými í neyðarvistun, þrjú strákapláss, tvö stúlknapláss og eitt svokallað gæsluvarðhalds- eða sérverkefnispláss og eru plássin hvort tveggja ætluð ungum fíklum sem og börnum og unglingum með annars konar vanda. Á meðferðardeildinni eru svo sex pláss. Þau eru ekki frátekin fyrir kynin svo þar er það bara umsóknarröðin sem gildir. Þar hefur verið stöðugur biðlisti enda plássin sárafá,“ sagði hún.

Og hún upplýsti um meira: „Á þessu ári einu hefur það gerst í rúmlega 20 skipti að ekki hefur verið hægt að taka á móti börnum í verulegri neyð á neyðarvistun BUGL, þar af 15 sinnum bara í marsmánuði.“

Börn í mikilli neyð

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Þetta er líkt og ef bráðadeildir landsins segðu við slasaða einstaklinga sem koma þangað með sjúkrabíl að því miður þá væri bara lokað. Þetta eru börn í það mikilli neyð að neyðarvistunin ein gildir. Það er bara hægt að grípa svo verulega inn í þeirra líf að neyðarvista þau, en því miður er ekkert pláss á Íslandi, ekkert úrræði annað en fangaklefarnir á lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Ég minni þingheim á og hæstvirtan ráðherra að við erum að tala um börn yngri en 18 ára. Þetta er ekki í boði. Íslensk stjórnvöld verða að gera betur. Því spyr ég: Eru einhverjar áætlanir uppi á borðum ykkar sem tekur á þessum bráðavanda sem blasir við okkur? Ég bið hæstvirtan ráðherra í fyllstu einlægni um að koma ekki með svar um að málið sé í samráðsferli, að drög séu að samtali, eða að útboð séu á næsta leiti. Þessi börn eru á vergangi og ég óska skýrra svara,“ sagði Helga Vala.

Stofnar vinnustofu

Svar ráðherrans var nákvæmlega einsog Helga Vala óttaðist.

„…nú er komið að því að Landspítalinn, háskólasjúkrahús, Barnaverndarstofa, umboðsmaður barna, velferðarráðuneytið, Reykjavíkurborg, heilsugæslan, Geðhjálp, Olnbogabörn og SÁÁ munu setjast saman yfir málið. Það er þá væntanlega það sem hv. þingmaður kallar samráðsferli og þykir ekki nógu gott. En markmiðið er að ná saman vinnustofu, í staðinn fyrir að skapa einhvern starfshóp sem ætti að skilja eftir langan tíma, þar sem þessi hópur myndi setjast yfir það verkefni á vinnustofu í einn dag í lok maí að setja saman tillögur til lausna,“ sagði Svandís.

Hvor talaði tvisvar. Hér er hægt að lesa ræður þeirra:

Helga Vala, ræða eitt.

Svandís, ræða eitt.

Helga Vala, ræða tvö.

Svandís, ræða tvö.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: