Árið 2016 varð tæplega fimmföldun á söfnun plastumbúða frá íbúum á Seltjarnarnesi miðað við árið 2015. Íbúar nýttu bæði grenndargám á Eiðistorgi í auknum mæli og sérstaka plastpoka undir plastumbúðir, sem eru hluti af tilraunaverkefni SORPU og Seltjarnarnesbæjar. Samanlagt söfnuðust tæp 8 tonn af plasti frá íbúum eða tæp 2 kg á mann til samanburðar við 380 gr á mann árið 2015. Þá er ótalið það plast sem skilað var á endurvinnslustöðina í Ánanaustum og íbúar á Seltjarnarnesi eiga vafalaust hluta af. Þangað skiluðu sér um 110 tonn af plasti til endurvinnslu árið 2016 sem var rúmlega 50% aukning frá fyrra ári.
Í nóvember fór fram árleg rannsókn SORPU á heimilisúrgangi, þar sem hlutfall mismunandi efna í almennum heimilisúrgangi er metið. Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að óflokkað plast er eftir sem áður í umtalsverðum mæli í orkutunnunni (gráu tunnunni) og því tækifæri til að ná enn betri árangri.