Fréttir

Fimm prósenta vaxtaþak

By Miðjan

March 11, 2023

Marinó G. Njálsson skrifaði:

Mig langar að taka undir orð Benedikts Gíslasonar, bankastjóra Arion banka, þegar hann segir, að Íslendingar ættu að njóta sömu lánskjara og önnur norræn ríki. Er þó ekki viss um að við leggjum sömu merkinguna í orðin.

Löngu er orðið tímabært, að íslenskar lánastofnanir veiti húsnæðislán á sömu kjörum og eru í boði á öðrum Norðurlöndum. Þá er ég að tala (eins og svo oft áður) um fasta, lága vexti á langtíma húsnæðislánum allan lánstímann eða lága, breytilega vexti með 5% vaxtaþaki. Að sjálfsögðu engin verðtrygging.

Sá lánveitandi, sem fyrst býður upp á þessi lánskjör, mun hirða markaðinn. Svo einfalt er það.

Höfum í huga, að ekki svo ólík lánskjör buðust á árunum fyrir hrun. Þá var hægt að fá gengistryggð lán með LIBOR vexti tengda við japanska jenið og svissneska frankann. Eins og Hæstiréttur komst að í nokkrum dómum sínum, þá voru þessi lán ekkert annað en lán í íslenskum krónum. Á þessum árum sveiflaðist gengið mikið og mánuðum saman lækkuðu eftirstöðvar meira en nam afborgunum ásamt því að vextir væru undir 1%.

Nú þýðir ekkert að segja, að þetta hafi ekki verið lán í íslenskum krónum, því þau voru það. Ekkert nema íslenskar krónur stóðu að baki lánunum, ekkert nema íslenskar krónur voru lagðar inn á reikning lántakans við lántöku og ekkert nema íslenskar krónur voru greiddar í afborganir og vexti. Vissulega endaði þetta með ósköpum, en það var ekki því að kenna að veitt voru lán á lágum vöxtum, því þrátt fyrir lágum vextina voru bankarnir með jákvæðan vaxtamun. Innlánsvextir voru nefnilega enn þá lægri!

(Svona til að hafa það á hreinu fyrir þá sem venjulega koma með athugasemdir um erlend lán, þ.e. lán í erlendum gjaldmiðlum, þá er ég ekki að tala um þau. Slíkum athugasemdum verður eytt.)

Eðlilegt er að lánum með svona vöxtum, eins og ég nefni að ofan, séu settar einhverjar skorður, svo sem að þau verði að vera á fyrsta veðrétti, megi ekki nema hærri upphæð en 60% veðrýmis (kaupverðs) og séu eingöngu veitt við kaup eignar. Þetta væri hægt að setja í lánþegaskilyrði Seðlabankans. Næsta lán, sem væri með 1-3% hærri vöxtum, væri líka með þaki, en það væri jafnframt það lán sem gæti veitt lántöku rétt til stuðnings falli þeir undir að vera nýir á fasteignamarkaði eða að vera í lágtekjuhópi.

Til eru aðrar útfærslur, en það eina sem ég veit, er að finna þarf leið til að tryggja eins mikinn stöðugleika fyrir heimilin varðandi húsnæðisskuldir og hægt er.

Lánveitendur verða síðan að átta sig á því, að viðskiptasamband til langs tíma virkar bara, ef báðir aðilar hafa ávinning af því. Eins og kerfið er byggt upp núna, þá er áhættan öll hjá lántökum meðan lánveitandinn er tryggður í bak og fyrir. Það er raunar hagur lánveitenda að hleypa öllu í bál og brand. Vilji einhver mótmæla því, þá er hagnaður þriggja banka, sem stofnaðir voru eftir hrun á brunarústum forvera sinna, kominn yfir 1.000 ma.kr. frá stofnun þeirra.

Greinina birti Marinó á Facebooksíðu sinni.