Þór Saari skrifar:
„Bakland ferðaþjónustunnar“ sem er Facebooksíða ferðamannaiðnaðarins hér á landi hefur nú hent mér út vegna gagnrýni minnar á aumingjakapítalisma Bláa lónsins og þeirra vandræða sem ferðaþjónustan almennt er búin að koma sér í með rekstrarmódeli sem gengur ekki upp. Pétur Óskarsson hjá fyrirtækinu Katla dmi & Viator er þar stjórnandi og sagði gagnrýni mína vera með skítkast. Hér er svar mitt til hans:
„Sæll Pétur. Það er dapurlegt að verða vitni að svona vinnubrögðum þar sem færslur mínar hafa alltaf verið málefnalegar þó ýmsar þeirra hafi verið gagnrýnar. Rekstur sem þolir ekki málefnalega gagnrýni er í vondum málum og það er því miður þannig komið fyrir ferðaþjónustunni að hún er á sama stað rekstrarlega og siðferðilega og bankakerfið var í aðdraganda Hrunsins, það er, annað hvort ertu með í liðinu eða þú ert fífl sem þarf á endurmenntun að halda. Ég hef sjálfur verið með ferðaþjónustu um árabil og fylgst með greininni alveg frá upphafi Ferðaþjónustu bænda á sínum tíma og þekki vel til hvernig hún hefur þróast og farið úr böndunum vegna algers skorts á almennilegri stefnumótun. Það stefnuleysi er að koma í bakið á okkur í dag með rekstrarumhverfi þar sem þorri fyrirtækja þolir ekki tveggja til þriggja mánaða samdrátt í tekjum. Það er einfaldlega ekki rekstrarmódel sem hægt er að byggja á, hvorki til skemmri né hvað þá heldur til lengri tíma. Það hefur verið frekar dapurlegt að fylgjast með hvernig greinin hefur svo heimtað að almenningur í landinu komi greininni til bjargar þrátt fyrir gríðarlegan arð sem sum fyrirtæki hafa verið að greiða sér, en það er augljóst þegar upp er staðið að þessi geiri er að stórum hluta, alveg eins og bankakerfið var, ekki sérlega mikils virði þegar upp er staðið. Gangi ykkur vel.“
Svo er nú það með þetta blessaða íslenska atvinnulíf, það eina sem við lærum af sögunni er að við lærum ekkert af sögunni.