„Þetta minnir mig aðeins á það, herra forseti, þegar senda átti raunverulegar ávísanir vestur í Ameríku í fyrra, í miðju Covid, og Bandaríkjaforseti heimtaði að undirskrift hans yrði á öllum ávísununum sem sendar voru út þannig að þetta liti út eins og ávísun eða gjöf frá honum sjálfum til þjóðarinnar,“ sagði Þorsteinn Sæmundsson í umræðu um „ferðagjöfina“.
„Mér finnst svolítið að með þessu sé ríkisstjórnin að láta í það skína að hún, ríkisstjórnin, sé að gefa þjóðinni eitthvað en því fer fjarri. Það sem greitt er af skattfé er greitt af þjóðinni. Vilji menn kalla þetta gjöf væri sem best hægt að kalla þetta þjóðargjöf vegna þess að þjóðin er að gefa sjálfri sér þetta. Hún er að gefa þeim sem reka starfsemi í ferðaþjónustu og veitingarekstri og öðru tækifæri. Orðið ferðagjöf er klént og hljómar eins og ríkisstjórnin sé að gefa þjóðinni eitthvað sem hún er ekki að gera.“