EFNAHAGSMÁL Kortavelta útlendinga hér á landi nam tæpum tól milljörðum í janúar. Það er rúmum sextíu prósenta meiri velta en hún var á sama tíma í fyrra. Þessi gríðarlegi vöxtur í kortaveltu er verulega umfram þann vöxt sem var á brottförum þeirra á sama tímabili, en samkvæmt tölum frá Ferðamálastofu Íslands fjölgaði erlendum ferðamönnum um tæp 24 prósent á milli ára í janúar og voru samtals 77,6 þúsund talsins.
Greining Íslandsbanka segir: „Af ofangreindum tölum mætti ætla að hver ferðamaður sem var hér á landi í janúarmánuði hafi eytt að jafnaði 150 þús. með kortum í mánuðinum en sú tala hefur aldrei áður náð sömu hæðum. Það er þó ekki raunin þar sem þessa gríðarlegu aukningu má að miklu leyti rekja til 2,2 ma. kr. aukinnar kortaveltu þeirra fyrir farþegaflutninga með flugi sem ríflega þrefaldaðist milli ára. Þetta má sjá í tölum Rannsóknarseturs verslunarinnar. Í fréttatilkynningu setursins sem birt var nú í morgun kemur fram að ein skýring er að WOW opnaði bókanir til og frá San Francisco og Los Angeles en sú velta kemur fram hjá innlendum færsluhirðum. Eru þetta því fyrirfram greiðslur og gæti aukin velta í þessum flokki verið merki um fjölgun erlendra ferðamanna síðar á árinu, hvort sem er til landsins eða hjá innlendum flugfélögum, sem hvort tveggja kemur inn í tölur um þjónustujöfnuð.“