„Þingflokksformaður VG sagði í hádegisfréttum Ríkisútvarps að ekki hefði unnist tími til þess á Alþingi að breyta kosningalögum þannig að þau tryggi að flokkar fái þingmenn í samræmi við fylgi sitt meðal þjóðarinnar. Auk þess hafi flokkar oft fengið aukamenn á Alþingi áður,“ skrifaði prófessor Ólafur Þ. Harðarson á Facebook.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir var fljót að benda á þversagnir í málflutningi Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttir:
„Hér má halda því til haga að breytingartillaga var lögð fram í vor og einmitt í tengslum við breytingar á kosningalögum. Til þess fundum við tíma sem áhuga höfum á slíkum breytingum. Og þingmenn VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fundu hjá sér tíma til að mæta í atkvæðagreiðslu og fella þessa tillögu okkar,“ skrifaði Þorbjörg Sigríður.
Skák og mát.
Ólafur sagði það síðara í svar Bjarkeyjar vera rétt: „Í núverandi kosningakerfi fékk einn flokkur aukamann 2013, 2016 og 2017. Það gerðist vegna þess að 1999 var jöfnunarsætum fækkað úr þrettán í níu. Eftir að skekkjan kom fyrst í ljós 2013 hefur Alþingi haft átta ár til þess að fjölga jöfnunarsætum aftur. Hvað þarf það langan tíma?
Fyrir 1987 fékk Framsóknarflokkur ávallt nokkra aukamenn í kosningum vegna kosningakerfisins. Öðrum flokkum líkaði það illa. Fyrir kosningarnar 1987 féllust Framsóknarmenn á að rétt væri að fjöldi þingmanna yrði í samræmi við vilja þjóðarinnar. Allir flokkar samþykktu breytingar á kosningakerfinu, sem tryggðu að þingsæti væru í samræmi við landsfylgi. Þetta tókst 1987-2009.
Vegna kerfisgallans var einn þingmaður tekinn af VG bæði 2013 og 2016. Árið 2017 fékk Samfylking einum þingmanni færra en Framsóknarflokkur þó Samfylking hefði fengið fleiri atkvæði. Þarf virkilega enn að hugsa málið?“