Birgir Þórarinsson, nú þingaður Sjálfstæðisflokks, var jafnvel manna duglegastur í andmælum við þriðja orkupakkann. Kannski leita ég eftir ummælum hans og birti. Sjáum til.
Birgir hefur gengið til liðs við Sjálfstæðisflokkinn, orkupakkaflokkinn sjálfan. Þessi stjórnmál.
Birgir fer ekki með friði úr fámennum einkaflokki Sigmundar Davíðs. Lýsir mögnuðum vinnubrögðum. Í hinn hnignandi Mogga skrifar Birgir:
„Þegar undirbúningur hófst fyrir alþingiskosningar taldi ég að þessu væri lokið. Ég var fullur tilhlökkunar og sannfærður um að við gengjum öll sameinuð til öflugrar kosningabaráttu. Fljótt varð ljóst að svo var ekki. Við uppröðun á framboðslista hófst skipulögð aðför gegn mér af hálfu áhrifafólks innan flokksins. Mikið var á sig lagt, liðsauki kallaður til, nýjar reglur settar og ýmsum brögðum beitt til að koma í veg fyrir að ég yrði oddviti í Suðurkjördæmi. Þeirri stöðu hef ég gegnt síðustu fjögur ár, hlotið næstbestu kosningu flokksins á landsvísu og viðhaldið styrkleika í kjördæminu allt kjörtímabilið.
Þeir sem unnu af heilindum við að velja sigurstranglegasta framboðslistann urðu fyrir aðkasti þegar fyrir lá að ég yrði áfram oddviti. Þetta hélt áfram allt fram á síðustu metra kosningabaráttunnar. Fimm dögum fyrir kjördag, þegar við frambjóðendur Suðurkjördæmis höfðum unnið vikum saman að því að afla flokknum fylgis, reyndu lykilmenn innan flokksins að draga úr trúverðugleika framboðsins. Voru það kaldar baráttukveðjur og særðu okkur mjög.
Ég hef sinnt þingstörfunum undir merkjum Miðflokksins af samviskusemi, borið hitann og þungann af fjármálaumræðu flokksins í þinginu og sett á oddinn málefni sem hafa laðað fólk að Miðflokknum. Málefni sem hafa verið vanrækt í umræðunni en skipta okkur máli sem þjóð. Ég taldi mig einfaldlega ekki eiga þessa aðför skilið.
Formaður Miðflokksfélagsins í Suðurkjördæmi, sem jafnframt gegndi stöðu formanns uppstillingarnefndar í kjördæminu, sinnti sínum störfum af drengskap og réttsýni, með hagsmuni flokksins að leiðarljósi. Að honum var sótt og störf hans gerð tortryggileg.
Miðflokkurinn beið afhroð í kosningunum og er í erfiðri stöðu. Margt fór úrskeiðis í kosningabaráttunni og í aðdraganda hennar. Mikið uppbyggingarstarf bíður forystunnar og flokksmanna, en endurreisnin mun aldrei takast nema full samstaða og traust ríki milli manna. Ljóst má vera að slíkt traust ríkir ekki í minn garð eins og ég hef rakið. Það er fullreynt. Einnig skal það sagt að flokksforystan hefur rofið traust mitt til hennar.“