Stjórnmál

Felldu allar tillögur stjórnarandstöðunnar

By Miðjan

March 31, 2020

Þingmenn meirihlutans gerðu sér lítið fyrir og felldu allar tillögur stjórnarandstöðunnar, þegar fjáraukalög voru afgreidd á Alþingi í gær. Margir þingmenn minnihlutans voru svekktir og sárir. Þeirra á meðal var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. Hann sagði:

„Ég verð að játa að þótt tiltölulega fátt komi manni á óvart í stjórnmálum kemur á óvart að stjórnarmeirihlutinn skuli ekki hafa sýnt neina viðleitni til að koma til móts við stjórnarandstöðuna varðandi þessar tillögur sem allar eru ætlaðar til úrbóta en fá nú allar höfnun frá stjórnarmeirihlutanum, að því er virðist eingöngu vegna þess hvaðan þær koma, jafnvel þó að um sé að ræða tillögur sem eru til þess ætlaðar að framkvæma það sem ráðherrar hafa boðað, eins og til að mynda framkvæmdir við flugvöllinn á Akureyri og á Egilsstöðum. Það er núna fellt af stjórnarmeirihlutanum. Óskir ráðherra um hvað gerist á árinu 2023 skipta engu máli í þessu ástandi nú. Við erum að taka ákvarðanir um aðgerðir sem eiga að virka strax en stjórnarmeirihlutinn ætlar að fella allar slíkar tillögur frá stjórnarandstöðunni.“