Félagslegi pakkinn minni en lækkun veiðigjalda
Ágúst Ólafur Ágústsson er í þeim hópi þingmanna sem tjáir sig um stjórnmál. Nú birtir hann þetta:
Skoðum aðeins sjö punkta:
1. Vissu þið að minna en 5% af aðgerðum ríkisstjórnarinnar fer í nýsköpun? 5% er í flestum bókum lítið.
2. Vissu þið að um 75% af aðgerðum ríkisstjórnarinnar fara í atvinnuleysisbætur og niðurgreiðslu á uppsögnum á fólki? Lítið sem ekkert fer í að verja störf eða búa til ný störf (hugmyndir um slíkt eru jafnvel kallaðar sem „verstu hugmyndir allra tíma“ af fjármálaráðherra).
3. Vissu þið að fjáraukarnir tveir sem ríkisstjórnin er búin að afgreiða auka ríkisútgjöldin einungis um 4%? Þar af var flýting framkvæmda minna en 2% aukning á ríkisútgjöldum. Í hvaða heimi er það nóg til að mæta dýpstu kreppu í 100 ár?
4. Vissu þið hinn svokallaði félagslegi pakki þessarar ríkisstjórnar vegna faraldursins nemur lægri upphæð en fyrirhuguð lækkun veiðileyfagjalda ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu?
5. Vissu þið að ríkisstjórnarflokkarnir keyrðu meira að segja í gegn í síðustu viku lækkun skatta á fyrirtæki sem „kaupa stór skip“. Þessari ríkisstjórn fannst ekkert mál að fella á svipuðum tíma tillögu þess efnis að námsmenn gætu fengið atvinnuleysisbætur þetta sumarið. Námsmenn eru auðvitað ekki stórútgerðarmenn.
6. Vissu þið að ríkisstjórnarflokkarnir hafa allir fellt tillögur um lækkun tryggingargjalds, hækkun í kvikmyndasjóð eða um auknar álagsgreiðslur til framlínufólks í faraldrinum?
7. Vissu þið að ríkistjórnarflokkarnir felldu tillögu á Alþingi um hér væri tryggt að fyrirtæki sem eru með eignarhald í skattaskjóli nytu ekki opinbers stuðnings? Af hverju ætli það sé? Kusu kjósendur VG og Framsóknar sína flokka með þetta í huga?
Ég skrifaði grein um þetta og um þörfina á að Ísland þarf fjárfestingaráætlun. Í síðasta hruni setti ríkisstjórn Samfylkingarinnar, fram sérstaka fjárfestingaráætlun fyrir Ísland. Áherslan var á grænt hagkerfi nýsköpunar, hagvaxtar og fjölbreytni í atvinnulífi. Þessi áætlun var meðal annars fjármögnuð með auðlindagjöldum. Núna þarf þjóðin að fá áætlun og aukinn arð af sínum eigin auðlindum. Ef ekki núna, hvenær þá?