Þegar Bjarni Benediktsson kynnti þingflokki sínum við upphaf nýverandi ríkisstjórnar, hvaða þingmenn hann hafði valið í ráðherraliðið brást Páll Magnússon fúll við og strunsaði af þingflokksfundi. Hann naut þá stuðnings allra flokksmanna í Vestmannaeyjum. Nánast hvers og eins einasta. Það átti eftir að breytast.
Í nóvember 2017 var skrifað hér á Miðjuna:
„Páll Magnússon, fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis, gekk fúll af þingflokksfundi í dag, þar sem Bjarni Benediktsson tilkynnti ráðherraval sitt.
„Ég mótmælti því harðlega í samtali við formanninn í morgun að hlutur kjördæmisins skuli þannig vera fyrir borð borinn og tilkynnti honum að af þessari ástæðu gæti ég ekki stutt þann ráðherralista sem hann lagði fyrir þingflokkinn.“
Páll hefur fengið sterk viðbrögð þar sem meðal annars er ítrekað skorað á hann að bjóða sig fram gegn Bjarna Benediktssyni, formanni flokksins, á komandi landsfundi. Páll hefur engu svarað.
„Í annað sinn á innan við ári hefur formaður Sjálfstæðisflokksins nú gengið framhjá Suðurkjördæmi þegar kemur að ráðherraskipan í ríkisstjórn sem flokkurinn á aðild að. Þetta gerist þrátt fyrir að kjördæmið sé annað höfuðvígi Sjálfstæðisflokksins á landinu,“ skrifar Páll á Facebook.
Meðal þeirra sem harma hlut Páls er Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.“
Fýlan leynir sér ekki. Aldrei rættist draumur Páls um að verða ráðherra. Hvað hangir á spýtunni á eftir að koma í ljós. Óttast Páll að falla eða bíður hans stóll Davíðs Oddssonar á Mogganum? Kemur í ljós.