„Framsóknarflokkurinn er náttúrulega kafli út af fyrir sig. Hann var á móti litasjónvarpi á sínum tíma. Páll Pétursson hélt ræðu um það í þinginu að ekki væri þörf á að hafa litasjónvarp, og Sigrún Magnúsdóttir er konan hans, svo þetta kemur mér ekkert á óvart,“ sagði Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni í gær, en þá var verið að ræða Costco og umræðuna sem hefur skapast þess vegna.
Þarna vitnaði Sigurður til umræðu á Alþingi vegna þingsályktunartillögu Ellerts B. Schram um að litasjónvarp yrði að verueika á Íslandi, en þetta var á tíu ára afmæli sjónvarpsins.
Páll fann ýmislegt að því að hér yrði litasjónvarp. Hann hafði áður barist fyrir að sjónvarpsútsendingar næðu til alls landsins, en þegar umræðan um litasjónvarpið fór fram, í desember 1976, sást sjónvarp ekki allsstaðar á landinu.
Ellert B. Schram var lengi meðal bestu fótboltamanna landsins, fyrirliði KR og landsliðsins. Þegar þetta var hefur Ellert trúlega verið ný hættur að spila fótbolta. Þetta er tekið fram hér þar sem KR kemur fyrir í ræðubútnum sem birtist hér.:
„ Það er vafalaust gaman að horfa á sjónvarp í lit. En fólkið á þeim 400 sveitabæjum sem hefur ekki sjónvarp, óskar ekki endilega eftir litasjónvarpi. Því er alveg sama þó að því væri einungis gefinn kostur á að horfa í svarthvítt. Það hefur ekki bagað mig að horfa á svarthvítt, og ég er nærri feginn að manndráp eru ekki sýnd í litum. Það er þá helst þegar knattspyrnukappleikir eru sýndir að ég lendi í nokkrum vanda að greina sundur búningana, og ég tel að hinn litskrúðugi búningur KR-inga mundi sóma sér mjög vel í litasjónvarpi og ekki minna mann á sebrahesta.“
Hér er hægt að lesa alla ræðu Páls.