„Þetta er allt málaflokki fatlaðs fólks að kenna. Allt fötluðu fólki að kenna, segir borgarstjóri. Já, óráðsía og framúrkeyrsla í fjármálum Reykjavíkurborgar er fötluðu fólki að kenna. Allt væri jákvætt í fjármálum hjá þeim í borginni um heila 3,8 milljarða kr. ef málaflokkur fatlaðs fólks kostaði ekki svona mikið,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, Flokki fólksins, á Alþingi í dag.
„Hæstvirtur fjármálaráðherra blandaði sér í þessa umræðu, sagði þennan útgjaldalið kominn úr böndunum og benti m.a. á NPA-samninga af því tilefni. Í viðtali við RÚV nýlega ræddi hæstvirtur fjármálaráðherra um málefni fatlaðs fólks, taldi að verkefnið hefði ekki verið nægilega vel unnið en vildi þó leita skýringa á öðrum stöðum en hjá ríkinu, því að mögulega væri verið að gera meira en lögboðnar skyldur kveða á um hjá borginni og reikningur vegna slíks verði ekki sendur ríkinu. Nei, auðvitað ekki.“
Guðmundur Ingi var ekki hættur hér:
„Þetta er allt saman fötluðum að kenna, fötluðu fólki sem kom hvergi nálægt þessum samningum. Það fer ekki á milli mála að kostnaður við flutning málefna fatlaðs fólks til sveitarfélaga var gróflega vanmetinn, bæði af ríki og borg. En það er á engan hátt fötluðum að kenna að Reykjavíkurborg klúðri samningum við ríkið og hafi ekki getu til að reikna kostnað við þennan nauðsynlega málaflokk rétt. Í þessum málaflokki eru biðlistar barna með þroska- og geðraskanir. Eitt barn á biðlista þar er einu barni of mikið. Einstaklingar dvelja á geðdeildum svo árum skiptir vegna þess að ekki er hægt að veita þá þjónustu sem lögbundin er hjá félagsþjónustu sveitarfélaga eins og lög um málefni fatlaðs fólks kveða á um. Þetta er ekkert annað en grófur skortur á þjónustu.“
Að lokum sagði Guðmundur Ingi:
„Á annað hundrað fatlaðs fólks er sent hreppaflutningum landshluta á milli á hjúkrunarheimili. Ummæli fjármálaráðherra og borgarstjóra eru því kaldar kveðjur til þeirra fjölmörgu fatlaðra sem bíða á biðlistum eftir þjónustu samkvæmt lögum um mannréttindi þeirra, sem væri tryggð ef við værum búin að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks hér á Alþingi. Það er ekki ofþjónusta heldur klárt þjónustuleysi ríkis og borgar og þeim til háborinnar skammar. Þar af leiðandi er á engan hátt hægt að kenna fötluðu fólki um þeirra vangetu.“