Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, varð hugsi þegar hún horfði á Kveiksþáttinn um fátækt.
„Fátækt er meinsemd sem á ekki að líðast í okkar ríka samfélagi. Ástæðurnar fyrir því að fólk missir fótanna eru auðvitað margvíslegar en sama hvernig gefið er í upphafi, sama hvaða áföll dynja yfir, þá á hið félagslega net okkar að grípa fólk, hjálpa því að komast á fætur og sjá til þess það geti lifað með reisn. Að búa í hjólhýsi í köldu landi um vetur uppfyllir ekki þau skilyrði,“ sagði Bjarkey á Alþingi í gær.
Ekki er gott að lesa í orð þingflokksformannsins þegar hún segir:
„Þetta réttláta samfélag er ekki verkefnið sem klárast. Það er áskorun sem endurnýjast í sífellu.“
Næst sagði hún: „Við stefnum í rétta átt á þessu kjörtímabili með hækkun barnabóta um hundruð þúsunda til fjölskyldna með lægstu tekjurnar, með breytingum á skattkerfi og með aðgerðum á sviði húsnæðismála, margt sem hefur nú þegar skilað árangri.“
Þarna örlar á meinloku. Sem er ekki gott hjá valdamanneskju.
„Tilkoma óhagnaðardrifinna leigufélaga og stóraukið samstarf ríkis og sveitarfélaga á sviði húsnæðismála hefur létt á þrýstingnum á húsnæðismarkaði en við erum ekki komin í mark því að markið færist.“