„Skilaboðin eru skýr. Fátækt fólk skiptir engu máli, það getur haldið áfram að éta það sem úti frýs. Það er með hreinum ólíkindum að þurfa að horfa upp á þetta misrétti og ótrúlega mannvonsku stjórnvalda gegn þeim sem mest þurfa á hjálp að halda,“ skrifar Inga Sæland, þingmaður og formaður Flokks fólksins.
Inga á sæti í fjárlaganefnd Alþingis og þekkir vel til aðgerðarpakka ríkisvaldsins.
„Fólk sem bjó við fátækt fyrir heimsfaraldurinn er hvergi nefnt í þessum svokölluðu björgunaraðgerðum ríkisstjórnarinnar. Sá þjóðfélagshópur hefur rétt eins og aðrir nú orðið fyrir tekjumissi og útgjaldaaukningu. Gengi krónunnar hefur fallið um 17% gagnvart dollar frá áramótum. Í fjárlaganefnd hef ég barist undanfarið fyrir því að í stað þess að greiða einungis 20 þús. kr. eingreiðslu til öryrkja nú 1. júní nk., þá yrði þessi uppbót framlengd 1. hvers mánaðar næstu þrjá mánuði. Þetta færi til allra almannatryggingaþega sem hefðu ekki úr neinu öðru að spila en strípuðum greiðslum frá TR. En þrátt fyrir að til séu hundruð milljóna til að styrkja einkarekna fjölmiðla sem jafnvel eru í eigu auðmanna og beintengdir við stjórnmálaflokka þá er svarið NEI!“
Þetta er hluti af lengri grein Ingu sem er að finna í Mogga dagsins.