„Útrýmum fátækt. Þá myndu hinir efnaminni öðlast þann styrk sem fjármagninu fylgir og öðlast virkari hlutdeild í völdum í þjóðfélaginu. Þá myndi lítilmagninn fá virkari hlutdeild í völdum þjóðfélagsins. Meiri jöfnuður myndi leysa úr læðingi hæfileika manna og stórauðga þjóðfélagið. Fátækt er sóun á hæfileikum.“
Það er Jóhann J. Ólafsson, fyrrum stórkaupmaður, sem skrifar þetta og Mogginn birti.
Jóhann hefur áhyggjur af misskiptingunni:
„Þetta leiðir af sér þá alvarlegu og umhugsunarverðu stöðu að um 70% almennings ráða aðeins yfir 5% af þjóðarauðinum. Samt borga þessi 70% þjóðarinnar stærsta hluta skattanna. Ég tel að þetta verði að breytast,“ skrifar og svo þetta: „Ríkisvaldið og auðmenn eru að skipta eignum þjóðfélagsins á milli sín.“
Síðan kemur Jóhann með tillögu:
„Hvernig væri því að skila nú hluta af þessu fjármagni okkar allra úr höndum hins opinbera, hinna fáu ráðamanna, aftur til fjöldans – venjulegra einstaklinga? Og gera það í öfugu hlutfalli við efni hvers og eins – þeir efnaminni fái hærri hlut – svo að bilið milli ríkra og fátækra styttist – og þar með verði dregið til muna úr fátækt – henni að mestu útrýmt.
Íslendingar eru fámenn, einsleit þjóð í stóru landi. Við slíkar aðstæður er fátækt skipulagsleysi, meinloka og klaufaskaði. Ofgnótt ætti miklu fremur að vera vandi sem er miklu skemmtilegri og viðráðanlegra úrlausnarefni.“