- Advertisement -

Fátæka konan sem rogast um með byrgðar samfélagsins – en vill það ekki

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifaði:

Jei Ísland! Kona á fimmtugsaldri, búin að vera á vinnumarkaði síðan hún var 17 ára á 10.000 krónur eftir þegar hún er búin að greiða húsaleiguna á meðan að „meðaleign hverrar fjölskyldu í efsta 0,1 prósent lagi samfélagsins hefur farið úr því að vera 922 milljónir króna í árslok 2016 í að vera 1,1 milljarður króna um síðustu áramót,“ samkvæmt frétt Kjarnans.

Það væri einstaklega áhugavert að vita hversu mikið auðugustu meðlimir eyjunnar okkar hafa auðgast á því vera þátttakendur í því ógeðslega arðránsverkefni sem leigumarkaðurinn hefur verið undanfarin ár, en líkt og kom fram í umfjöllun Stundarinnar fyrir skemmstu um Gamma var af einbeittum brotavilja farið í það verkefni að sölsa undir sig eignir og hækka leigu, sem hafði samkvæmt fjármagnseigendum „verið of lág“. (https://stundin.is/…/audmenn-tengdir-skattaskjolum-eiga-i…/…)
Samkvæmt Kjarnanum er eigið fé fólksins efst í stéttapíramídanum vanmetið en eitt er þó víst:

Á Íslandi halda hin ríku sannarlega og rösklega áfram að auðgast, og hafa meira að segja gefið í auðsöfnunina á síðustu árum: „Því liggur fyrir að efnuðustu Íslendingarnir eru að taka til sín stærra hlutfall af nýjum auð á síðustu tveimur árum en þeir hafa gert að meðaltali síðastliðin níu ár.“

Tilraun sem hefur t.d. snúist um það að ljúga því að fólki að á Íslandi sé ekki stéttaskipting.

Í Reykjavík er útsvar ekki lagt á fjármagnstekjur. Þannig að vinnuaflið leggur sitt af mörkum til borgarinnar svo að hægt sé að bjóða borgurunum alla þá þjónustu sem þeir reikna með, eins og t.d. leikskóla, á meðan hin ríku sem að lifa af eignum og auðsöfnun þurfa ekki að velta slíku fyrir sér.

Það er spurning hvort konan sem á 10.000 krónur eftir þegar leigan hefur verið greidd getur glatt sig við það að vera svona agalega ábyrgðarfull svo að aðrir geti bara haft það enn náðugra. Það hefur auðvitað verið massív samfélagsleg narratívs-tilraun í gangi til að fá fólk til að sætta sig við hlutskipti sitt og halda bara áfram að strita, frá unglingsárum fram á gamals aldur. Tilraun sem hefur t.d. snúist um það að ljúga því að fólki að á Íslandi sé ekki stéttaskipting, að vegna þess að við keyrum á sömu götum og stingum okkur kannski til sunds í sömu laugina þá séum við öll saman að sigla í þjóðarskútunni, þar sem aðeins er eitt farrými. Að vegna þess að hin ríku séu ekki búin að útbúa einhverskonar aflokaðar byggðir bara fyrir sig séum við öll sem eitt.

Mín tilfinning er sú að nei, ofur-arðrænda konan getur ekki glaðst yfir sínu svakalega ábyrgðarfulla hlutverki og það sem mikilvægara er, hún vill ekki gleðjast yfir því að vera svona dugleg að standa sína plikt. Hún hefur engan áhuga á því að rogast um með byrgðar samfélagsins svo að aðrir geti sloppið við það. Hún hefur aldrei verið spurð, það hefur bara verið gengið út frá því sem vísu að hún væri til í að fórna tilveru sinni og heilsu, andlegri og líkamlegri, svo að hin ríku gætu fengið að verða ríkari og ríkari. Hún hefur alveg verið að segja Nei! lengi lengi en það hefur bara ekki verið hlustað. Það sem að hún vill og það sem myndi gleðja hana er að eitthvað réttlæti væri í boði fyrir hana. Ef að einhver sem fer með völd sýndi viðleitni og áhuga á að minnka arðránið á henni, viðleitni og áhuga á að hemja auðsöfnun auðstéttarinnar í þeim tilgangi að hún fengi að lifa aðeins frjálsari.

Ætlar borgin að halda áfram að vera speglaborg nýfrjálshyggjunnar?

Þau sem fara með völd í þessu samfélagi, þessari borg, standa frammi fyrir vali. Ætla þau að halda áfram að ríkja yfir kerfi sem er augljóslega ógeðslegt og ósiðlegt, halda áfram að láta sem ekkert sé, að öllum finnist bara gaman, að „hver sé sinnar gæfu smiður“ eins og hinn kaldlyndi ráðuneytisstjóri félagsmálaráðuneytisins komst að orði þegar hann velti fyrir sér örlögum aðflutts verkafólks eða ætla þau að sýna sómakennd og styrk, og gera það sem í þeirra valdi stendur til að í það minnsta byrja að vinda ofan af bullinu? Ætlar borgin að halda áfram að vera speglaborg nýfrjálshyggjunnar þar sem ekkert skiptir máli nema það að við þykjumst öll vera hress eða ætlar hún að „woman-up“ og færa fólkinu sínu það sem það á skilið?
Það er ýmsir möguleikar fyrir hendi til að byrja að taka til og það væri ágætt að byrja á því að setja útsvar á fjármagnstekjur og nota svo ávinninginn til að borga láglaunafólkinu í borginni mannsæmandi laun.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: