Verð fasteigna og byggingakostnaður haldast nokkurn veginn í hendur, um þessa mundir.
Söluverð íbúða hækkaði umfram byggingakostnað fram á þetta ár, en í kjölfar kjarasamninga í vor hækkaði byggingakostnaður talsvert. Það hefur því dregið aftur saman með hækkun söluverðs og byggingarkostnaðar. Hér er byggingakostnaður mældur með vísitölu byggingarkostnaðar, en sú vísitala mælir ekki allan byggingarkostnað, t.d. er lóðaverð, hönnunarkostnaður og leyfisgjöld ekki inni í byggingarvísitölunni. Þróun byggingarvísitölunnar ætti engu að síður að vera ágætis vísbending um þróun byggingarkostnaðar þannig að samhengi söluverðs og byggingarkostnaðar bendir heldur ekki til bólumyndunar á fasteignamarkaði.
Þetta bendir til þess að ekki sé að myndast verðbóla á fasteignamarkaði. Sú er niðurstaða greiningar Landsbankans.
„Þrátt fyrir miklar hækkanir á fasteignaverði að undanförnu er niðurstaðan sú að fasteignaverð hefur þróast nokkurn veginn í samhengi við undirliggjandi stærðir. Það er svo spurning hvernig framhaldið verður, en ýmsir þættir eins og lítið framboð á nýju húsnæði, lækkandi fjármagnskostnaður og auðveld aðkoma að lánsfé hafa allir áhrif til áframhaldandi hækkunar fasteignaverðs,“ segir greiningardeildin.