Þrátt fyrir að fasteignaverð hafi hækkað mikið að undanförnu hefur það frekar gefið eftir gagnvart kaupmáttaraukningu. Þetta kemur fram í greiningu Landsbanka Íslans.
Þar segir einnig að laun og ráðstöfunartekjur séu þeir þættir sem hafa einna mest áhrif á þróun fasteignaverðs. Frá árinu 2013 hækkaði fasteignaverð meira en kaupmáttur. Sú þróun stöðvaðist hins vegar nú í vor og síðan hefur kaupmáttur launa hækkað meira en fasteignaverð. Bólumyndun byggir á því að verð á einhverju, t.d. fasteignum, missir tengsl við undirliggjandi hagstærðir. Hér er staðan ennþá sú að fasteignaverð hefur ekki þróast markvert öðruvísi en kaupmáttur launa, líkt og gerðist á árunum 2004-2006. Það er því ekkert sem bendir til þess að verðbóla hafi myndast á fasteignamarkaðnum enn sem komið er.
Í október hækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 0,6% milli mánaða, jafn mikið á fjölbýli og sérbýli. 12 mánaða hækkun húsnæðisverðs er því áfram mikil eða 10%.
Munur á sérbýli og fjölbýli 12 mánaða hækkun á sérbýli er komin upp í 9% og árshækkunin á fjölbýli er 10,3%. Árshækkunartakturinn er því áfram hár í báðum tilfellum. Hækkun fjölbýlis hefur verið nokkuð jöfn allt frá árinu 2011 en hækkun sérbýlis minni og sveiflukenndari. Sé litið á þróun síðustu ára má sjá að 12 mánaða hækkun fjölbýlis hefur jafnan verið á bilinu 8-12% seinni hluta tímabilsins. Þá er einnig greinilegt að hækkunartaktur sérbýlis hefur verið mun meiri á þessu ári en var á árunum 2012-2014.