Fasteignaverð á höfðuborgarsvæðinu tók stórt stökk í apríl og hækkað um 2,2 prósent frá mánuðinum á undan. Samkvæmt tölum Þjóðskrár hefur fjölbýli hækkað um 23,2% á síðustu 12 mánuðum, sérbýli um 21,6% og er heildarhækkunin 22,7%.
Í Hagsjá Landsbankans segir: „Nú í apríl tók fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu stórt stökk einu sinni enn og hækkaði um 2,2% frá því í mars. Þar af hækkaði fjölbýli um 2,6% og sérbýli um 1,1%. Samkvæmt tölum Þjóðskrár hefur fjölbýli hækkað um 23,2% á síðustu 12 mánuðum, sérbýli um 21,6% og er heildarhækkunin 22,7%. Hækkanir síðustu 12 mánaða eru mjög miklar og þarf að fara allt aftur til upphafs ársins 2006 til að sjá álíka tölur.
Þar sem verðbólga hefur verið lág er raun hækkun fasteigna meiri en annars væri. Á árunum 2011-2013 var nokkuð sterk fylgni á milli þróunar fasteignaverðs og kaupmáttar launa. Frá miðju ári 2013 til sama tíma 2015 tók fasteignaverðið fram úr, en sú þróun gekk aðeins til baka frá vorinu 2015 fram til sama tíma 2016. Síðan þá hefur fasteignaverð hækkað mun hraðar en kaupmáttur launa, sérstaklega allra síðustu mánuði. Þarna er bæði um það að ræða að kaupmáttaraukningin er ekki eins hröð og áður og þá hefur fasteignaverðið hækkað miklu meira en áður. Sé litið á mynd af hlutfallinu á milli þessara tveggja stærða má sjá að hallalínan síðustu mánuði er mjög brött upp á við og er óneitanlega farin að minna á þróunina á árinu 2005.
Nokkur munur er á húsnæðisverði og íbúðarverði. Meðan byggingakostnaður hefur lækkað aðeins hefur raunverð íbúða í fjölbýsli hækkað um fjórðung. „Raunverð fasteigna hefur nú farið upp fyrir það stig þar sem það var hæst í október 2007. Raunverðið í apríl var tæplega 1% hærra en það varð hæst. Kaupmáttur launa komst upp fyrir hæsta stig í nóvember 2014 og nú hefur raunverð fasteigna náð sama marki,“ segir í Hagsjá Landsbankans.
-sme