Það tók Sjálfstæðisflokkinn hins vegar langan tíma að ná völdum, verða sá miðpunktur stjórnmálanna sem síðar varð (og enn er, því miður).
Gunnar Smári skrifar:
Í ár eru 90 ár frá stofnun Ríkisútvarpsins, frá vígslu aðalbyggingar Háskóla Íslands og frá því að fyrsti sjúklingurinn lagðist inn á Landspítalann. Bíddu, hvernig stendur á því að þetta gerðist allt á sama árinu? Hvaða ógnarkraftur var í samfélaginu á þessum tíma?
Árið 1915 var kosningaréttur gerður svo til almennur, þegar konur og eignalausir karlar fengu kosningarétt. Árið eftir var Alþýðusamband Íslands stofnað og þar með stjórnmálaarmur verkalýðshreyfingarinnar; Alþýðuflokkurinn. Og sama ár Framsóknarflokkurinn, stjórnmálaarmur annarrar fjöldahreyfingar almennings, samvinnuhreyfingarinnar. Þessir tveir flokkar áttu eftir að færa stjórnmálin frá þvargi borgarastéttarinnar á heimastjórnarárunum yfir í það sem kalla má alþýðustjórnmál, stjórnmál sem snúast um hagsmuni fjöldans. Við þetta var fókusinn færður að samfélagsuppbyggingu, nation building, sem borgarastéttin hafði engan áhuga á (hin ríku þurfa ekki samfélag, telja sig geta séð um sig án þess).
1927 komust þessir flokkar til valda, Alþýðuflokkurinn veitti ríkisstjórn Framsóknar hlutleysi, og tímabil yfirráða borgarastéttarinnar lauk. Það tók borgarastéttina langan tíma að fóta sig í nýjum alþýðustjórnmálunum. Fyrsta skrefið var að stofna Sjálfstæðisflokkinn, sem var flokkur borgarastéttarinnar og gætti auðvitað hagsmuna hennar, en breiddi yfir þau markmið fasísk slagorð um stétt með stétt og þjóðernislega samstöðu. Fasisminn er leið borgarastéttarinnar inn í alþýðustjórnmálin. Það tók Sjálfstæðisflokkinn hins vegar langan tíma að ná völdum, verða sá miðpunktur stjórnmálanna sem síðar varð (og enn er, því miður). Leiðin fólst í því að kljúfa á milli samvinnuhreyfingarinnar og verkalýðshreyfingarinnar, sem tókst með myndun nýsköpunarstjórnina með Alþýðuflokki og Sósíalistum 1944. Og síðan að kljúfa á milli krata og sósíalista með því að taka Framsókn inn í stjórn fyrir sósíalista og mynda síðan næstu áratugina stjórn ýmist með krötum eða Framsókn.
Tilfellin þar sem stjórnmálaarmar verkalýðs- og samvinnuhreyfingarinnar náðu saman urðu fá og vörðu stutt, en tryggðu samt nokkrar framfarir; til dæmis útfærslu landhelginnar 1958 og 1972, sem er í raun mikilvægasti hluti sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar og sem borgarastéttin hafði takmarkaðan áhuga á, enda hafði hún það fínt og hafði ekki mikla hvöt til að berjast fyrir aukinni hagsæld fyrir landsmenn alla.
En á þeim árum sem ítök borgarastéttarinnar var minnst, frá 1927 til 1942 þegar utanþingsstjórn var skipuð, varð Ísland í raun til. Þá var ekki aðeins reistur spítali og háskóli og útvarpi komið á heldur einnig verkamannabústaðir reistir, almannatryggingum komið á og vinnulöggjöf sem gaf launafólki verkfallsrétt og þar með vopn í stéttastríðinu sem var lykilatriði í samfélagsuppbyggingunni, framfærsluskyldu sjúkra og fátækra var skipulög o.s.frv. Grunnur var lagður að velferðarkerfunum sem við búum enn að. Og á þessum árum voru líka innviðir lagðir og byggð upp atvinnufyrirtæki í félagslegum rekstri, samvinnu- og bæjarútgerðir, og traustari fótum komið undir atvinnulífið eftir upplausnarár frumbýliskapítalismans, spákaupmennsku og brask.
Þegar við fögnum afmæli Ríkisútvarps og Landspítala ættum við að minnast þess að þessir áfangar komu ekki af sjálfum sér. Fyrst þurftu afar okkar og ömmur, langafar og langömmur, að koma borgarastéttinni frá völdum, því hún var og er hindrun allra framfara. Ef okkur tekst að koma auðvaldsflokkunum frá völdum í kosningunum næsta haust, Sjálfstæðisflokki, Miðflokki og Viðreisn; og halda þeim frá völdum í einn eða tvo áratugi, og helst að eilífu, þá gætum við séð á næstum árum annað framfaraskeið á Íslandi, líkt og var síðast þegar tókst að sameina öflugustu hreyfingar almennings til að byggja hér upp skárra samfélag, sem miðað var við þarfir fjöldans en ekki aðeins hinna fáu.
Megi árið 2021 færa ykkur þá blessun.