Stjórnmál
„Ég hef sjaldan heyrt aðra eins froðu flæða eins og í þessu viðtali við forstýru Vinnumálastofnunar. Hún réttlætir aðförina að fötluðum sem vinna á vernduðum vinnustað, Múlalundi í þessu tilviki, á kostnaði ríkissjóðs upp á 150 milljónir á ári. Hún segir að eðlilega geti ekki allir unnið á almennum vinnumarkaði en þeir sem geti það ekki, séu á örorkubótum engu að síður,“ þannig skrifar Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
„Hvert er inntak þessarar orðræðu? Jú fatlaðir sem þurfa á stuðningi að halda mega sitja einangraðir heima hjá sér af því að þeir eru hvort sem er á örorkubótum. Þeir líka kosta ríkissjóð of mikið. Mér verður hreinlega flökurt.
Það er verið að ausa peningunum okkar á báða bóga til að aðstoða fólk í öðrum löndum sem á bágt en okkar minnstu bræður og systur mega þola enn frekari jaðarsegningu í samfélaginu og félagslega einangrun og vanlíðan hvern einasta dag af því að það „kostar of mikið“ að veita þeim þá aðstoð og þann kærleika sem þau þurfa á að halda til að líða eins vel og kostur er miðað við fötlun sína. Ef satt skal segja þá get ég ekki með nokkru lifandi móti áttað mig á þessari ómanneskjulegu aðför gegn fötluðu fólki sem virkilega þarf á hjálp okkar að halda til að geta tekið þátt í samfélaginu.“
Inga Sæland er ekki hætt:
„Lilja Alfreðsdóttir vill hækka listamannabætur um 700 milljónir á ári, þannig munu þær bætur nálgast 2 milljrðana árlega. Fjölmiðlar fá styrki upp á hundruð milljóna á ári, Bjarni ætlar að kaupa vopn fyrir 300 milljónir til að styðja við stríðsreksturinn í Úkraínu. Hins vegar kosta fatlaðir sem þarfnast stuðnings „of mikið“.
Samningur sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks liggur ofaní skúffu Velferðarnefndar og á ekki að lögfesta hann þrátt fyrir að hin grimmilega aðför gegn fötluðum sé sögð byggja á samningnum og hreinlega túlkað fötluðum í hag. Það er eins og allir hljóta að sjá ósatt með öllu. Fari öll þessi hræsni norður og niður og lengra ef hún kemst,“ skrifar Inga Sæland.