Marinó G. Njálsson skrifar umfangsmikla og góða grein á eigin bloggsíðu. Greinin byrjar svona:
Efnahagsmál
Verðtrygging var sett á með Ólafslögum í apríl 1979. Tilgangurinn var að bregðast við þrálátri verðbólgu og bruna sparifjár og lánfjár, en jafnframt tryggja að laun hækkuðu í samræmi við verðbólgu. Við getum alveg deilt um framkvæmdina, en niðurstaðan var að verðbólga jókst gríðarlega og því má segja að aðgerðin hafi mistekist herfilega. Fjórum árum síðar var verðbólga komin yfir 100%, en var 36,2% í apríl 1979.
Fyrstu árin var lánfé verðtryggt samkvæmt lánskjaravísitölu sem bæði var tengd launavísitölu og vísitölu neysluverðs. Síðustu áratugi hefur hins vegar eingöngu vísitala neysluverðs verið notuð. Það er því bein tenging milli verðbóta lána og vísitölu neysluverðs. Vandinn er hins vegar að vísitalan er ekki gerð/hönnuð til þess að nota til slíkrar verðtryggingar.
Í fyrsta lagi hefur vísitala neysluverðs ekkert með verðgildi peninga að gera og því ekki hægt að nota hana til að meta hvort og þá hvernig það hefur breyst. Í öðru lagi eru liðir í vísitölunni sem eru ekki bein útgjöld, en í staðinn ætluð útgjöld reiknuð út frá óljósum og umdeildum forsendum. Í þriðja lagi mælir vísitala neysluverðs verðbreytingar ekki rétt og almennt meiri en þær eru í raun og veru. Í fjórða lagi er vöru- og þjónustugrunnurinn, sem er notaður, er yfirleitt úreltur, þ.e. neyslumynstrið, sem stuðst er við, er að jafnaði að minnsta kosti tveggja ára gamalt. Í fimmta lagi eru mælingarnar í besta falli nálgun á verðbreytingum, því þær ná bara til hluta þeirrar vöru og þjónustu sem neysla neytenda nær til. Hér má lesa greinina alla.