„Neytendastofa fór í eftirlit hjá Dzien Dobry, Hólagarði, sem selur rafrettur og áfyllingar í þær. Lagt var sölubann á 14 tegundir af áfyllingum fyrir rafrettur.“
Þetta má lesa á vef Neytendastofu.
„Sjö tegundir áfyllinga fyrir rafrettur innihéldu nikótínvökva umfram leyfilegan hámarksstyrkleika. Á umbúðum þriggja áfyllinga voru tveir límmiðar. Á ytri límmiða, sem sneri að viðskiptavinum, stóð að áfyllingin innihéldi 20 mg/ml. Við nánari skoðun kom í ljós að límmiðinn hafði verið límdur yfir annan límmiða þar sem sagði að áfyllingin innihéldi 50 mg/ml. Við prófanir reyndust áfyllingarnar innihalda rúmlega 50 mg/ml af nikótíni, sem er langt umfram leyfilegan hámarksstyrkleika. Því var lagt bann við sölu og afhendingu við þeim.
Aðrar sjö tegundir voru bannaðar þar sem búið var að rjúfa innsigli þeirra og bæta við nikótíni, auk þess sem tvær þeirra voru taldar höfða til barna. Neytendastofa taldi áfyllingarnar ekki öruggar, þar sem ekkert var vitað um innihald áfyllinganna og bannaði því sölu á þeim.“
Hér má lesa ákvörðun Neytendastofu.