Sjálfur vil ég sóma Björgvins Halldórssonar sem mestan og bestan, svo öll bið og vandræðagangur er til vansa.
Halldór Árni Sveinsson skrifar:
Það er til marks um hve hróður okkar litla, meina stóra bæjarfélags, Hafnarfjarðar, hefur borist um alla heimsbyggðina, að önnur helsta menningarborg heimsins, Hollywood, hefur nú gert kröfu um að lítill virðingarvottur við helsta samtímatónlistarmann bæjarins verði fjarlægður úr breiðstræti bæjarins. Og bannað bæjarstjórninni að leggja fleiri stjörnur í götu annarra listamanna sem þó var hugmyndin frá byrjun.
Nú þarf að bregðast skjótt við, því ekki má skapa bæjarsjóði skaðabótaábyrgð upp á tugi knatthúsa, en að sama skapi verðum við, að öllu gamni slepptu, að haga virðingu bæjarins þannig, og enn frekar listamannsins sem með þessu var verðskuldaður sómi sýndur, að viðurkenningin standi. Og jafnvel fái nýjan þrótt og þróun með hugvitsamlegri breytingu í formi og nafni. Að fara að standa í þrasi fyrir dómstólum er ekki í boði, og sporin hræða einnig, því þrátt fyrir góðan málstað í deilum við ríkið t.d. varðandi málefni Krýsuvíkur, og síðar við Landsbanka (áður Íslandsbanka) um eignarhald á Thorsplani, höfum við farið flatt á slíku og þurft að borga fúlgur fjár. Hvað þá við erlendar stórborgir með vinsæl vörumerki að verja. Auðvitað hefði slík deila getað vakið svo mikla athygli á bænum okkar að kvikmyndaverin stóru í Hollywood hefðu slegist um að kaupa réttinn að kvikmyndahandriti um stjörnudeiluna Hollywood vs. Hafnarfjörður. Og hver ætti þá að leika Björgvin í Hollywoodútgáfunni? Matt Damon, Brad Pitt eða Leonardo di Caprio? Mæmaðir af Bruce Springsteen?
Nei nú þarf að hugsa og það hratt. Fyrsta hugmyndin sem laust í kollinn á mér væri að nota merki bæjarins til að gera nýtt heiðurstákn. Já sleppið öllum aulabröndurum eins og hálfvitann og annað í þeim dúr plís. Menningarviti kom upp í hugann. Orð sem upphaflega var gildishlaðið í neikvæðri merkingu um menningarelítuna. Ekki man ég lengur hver átti hugmyndina að þessu nýyrði, grunar að það gæti verið Guðmundur Guðmundarson í Lindu-umboðinu vestur í bæ, en honum var meinilla við fulltrúa hámenningarinnar og lét það óspart í ljós í ræðu og riti. Finnst þó eins og hann hafi frekar verið höfundur skammaryrðisins mannvitsbrekka. Orðið menningarviti hefur á seinni árum unnið sér sess í málinu sem jákvætt afl sem lýsir af, og er nú notað um vitann á Akranesi eftir breytt hlutverk. Og ekki viljum við fá stefnu fyrir dómstóla frá því ágæta fólki.
En fallegt lógó og lýsandi nafn á þessa viðurkenningu er það sem við þurfum – og það strax. Mín hugmynd er sú að við ættum í leiðinni að útvíkka skilgreininguna á sjálfri viðurkenningunni og tengja hana ekki eingöngu framúrskarandi tónlistarfólki, heldur einnig verðugum fulltrúum skapandi og túlkandi lista í Hafnarfirði t.d. í tónlist, myndlist, leiklist, hönnun og ritlist hvers konar. Hafði reyndar stungið þessari hugmynd að góðum arkitekt í bænum sem setið hefur í nefnd um þróun og framtíð miðbæjarins, nokkru áður en hugmyndin um gangstéttarhellurnar kom til sögunnar. En okkar leiðir liggja stundum saman í kaffispjalli á Súfistanum, þar sem ég bað hann um að koma hugmynd minni um lifandi bautasteina og ljóðmanir um alla Strandgötu á framfæri, ásamt því að nota stóra húsgafla Strandgötunnar meira til grafískrar framsetningar á afrekum okkar listafólks, lifandi og liðnu, en framtak Ingvars Björns með þrívíddarverkin hafa komið mörgum í gott skap og lífgað upp á miðbæinn.
En leggjumst nú öll á eitt og hugsum málið. Okkur leggst eitthvað gott til. Sjálfur vil ég sóma Björgvins Halldórssonar sem mestan og bestan, svo öll bið og vandræðagangur er til vansa. Hann á það inni hjá okkur að gera þetta vel. Stjörnur eiga að skína – ekki bara um jólin.