Sigurður Jónsson, fyrrverandi bæjarstjóri og góður og gegn Sjálfstæðismaður til áratuga, gagnrýnir ríkisstjórnina og sinn flokk, í Moggagrein í dag. Grein Sigurðar byrjar svona:
„Ríkisstjórnin samþykkti að hækka ýmsar álögur og þjónustugjöld um síðustu áramót. Þetta þýðir aukin útgjöld fyrir heimili landsins og eykur verðbólguna. Rök ríkisstjórnarinnar eru að nauðsynlegt sé fyrir ríkið að fá inn auknar tekjur til að halda í við verðlagsþróunina, að öðrum kosti þýði það niðurskurð á þjónustu við borgarana. Já, það er nú það. Alveg hægt að skilja þessi rök. Það sem vekur furðu mína varðandi þau er að þau gilda ekki um greiðslur til ellilífeyrisþega.“
Síðar í greininni segir:
„Nú segja forystumenn stjórnarflokkanna: Við erum víst góð við eldri borgara. Þið megið vinna fyrir allt að 200 þúsund krónum á mánuði áður en greiðslur frá Tryggingastofnun skerðast. Ágætis mál, en það geta ekki allir eldri borgarar farið á vinnumarkaðinn. Það er því ósanngjarn munur að mega vinna fyrir 200 þúsund krónum á mánuði án skerðingar en þeir sem eingöngu hafa hluta tekna sinna frá lífeyrissjóði þurfi að þola skerðingar strax eftir 25 þúsund krónur.
Frítekjumark til lífeyrisþega ætti að lágmarki að vera 100 þúsund krónur á mánuði.
Falleg orð alþingismanna og ráðherra við hátíðleg tækifæri hafa lítið að segja til að seðlum fjölgi í veskinu ef ekkert er á bak við þau. Það er ekki nóg að segja að eldri borgarar hafi byggt upp núverandi velferðarkerfi og eigi því allt gott skilið. Skilar litlu ef framkvæmdin er eins og raun ber vitni. Er það ekki lágmarkskrafa að frítekjumark eldri borgara fylgi launaþróun í landinu?“