Vinnumarkaður „Atvinnuleysi er enn á niðurleið þó hægt hafi á lækkun þess. Hlutfall starfandi hefur náð sömu hæðum og í síðustu uppsveiflu, sem er til marks um kraft efnahagslífsins. Á þriðja ársfjórðungi 2015 voru 6.800 atvinnulausir en við það bætast 15.400 einstaklingar sem vinna skertan vinnutíma eða eru atvinnulausir án þess að flokkast sem slíkir. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýjasta hefti Efnahagsyfirlits VR. Í yfirlitinu fjallar hagfræðingur VR um helstu lykiltölur íslensks efnahagslífs og horfurnar næstu misseri,“ segir á vr.is, heimasíðu VR.
„Frá júní 2015 hefur Seðlabanki Íslands hækkað stýrivexti um 1,25%-stig en sú hækkun hefur haft takmörkuð áhrif á vexti stærstu viðskiptabankanna. Verðbólgan 2015 var 1,6% en mikil óvissa er um þróun hennar á næstu árum og byggir það helst á miklum sveiflum í hrávöruverði, hækkandi fasteignaverði og möguleika þess að innflæði fjármagns snúist í útflæði. Því hefur verið haldið fram að krónan sé stöðugur gjaldmiðill en í samanburði við átta aðra gjaldmiðla eru sveiflur í gengi krónunnar um 50% meiri.
Skiptar skoðanir eru um brottflutning Íslendinga árið 2015 en sjaldan hefur nettó aðflutningur verið jafn lítill á tímum í íslensku efnahagslífi sem ekki flokkast sem kreppa. Mikið magn fjármagns hefur flætt inn í íslenskt hagkerfi seinustu mánuði en því getur fylgt ofhitnun hagkerfisins. Velta á fasteignamarkaði hefur aukist mikið seinustu árin og nálgast, að raunvirði, veltuna 2004. Skuldir heimilanna eru ekki að vaxa og því líkur á að stór hluti nýrra útlána bankakerfisins fari í uppgreiðslur lána Íbúðalánasjóðs.“