Fákeppnisfélög eru sem blóðsugur
Það eru einkum fákeppnisfélög sem greiða ofurlaun og neytendur, almenningur, ber þá byrði gegnum verðlagið.
Ragnar Önundarson skrifar:
Fákeppni er orðin yfirgnæfandi vandamál í samfélaginu. Evrópskar samkeppnisreglur ganga út frá að markaðir séu stórir og virkir, sem ekki gildir hér. Eigendur og stjórnendur fákeppnisfélaganna stunda fyrst sjálftöku af neytendum, almenningi, og hirða svo ávinninginn gegnum ofurlaun og arð. Hvað er til ráða? Safna þarf hugmyndum og ræða þær:
* Gera þarf íþyngjandi að fyrirtæki fái skilgreininguna „fákeppnisfélag“.
* Getum við komið í veg fyrir að undirstaðan, markaðurinn, verði fákeppnismarkaður?
* Við getum lagt hærri skatt á fenginn arð úr fákeppnisfélögum. Það raskar ekki stöðu fyrirtækisins en dregur úr vilja eigendanna til að félagið hljóti skilgreininguna.
* Við getum sett „ofurskatt“ á sjálftekin „ofurlaun“ stjórnenda. Það eru einkum fákeppnisfélög sem greiða ofurlaun og neytendur, almenningur, ber þá byrði gegnum verðlagið.
* Við getum sett hámark á frádráttarbærni launa og hlunninda eins og sama starfsmanns hjá launagreiðanda. Eðlilegt væri að hámarkið væri við sama mark og ofurlaunaskattþrepið.
* Við getum bannað lífeyrissjóðum, sem fara allir með almannafé, að fjárfesta í fákeppnisfélögum. Algengt hefur verið að lífeyrissjóðir hafi keypt af einstaklingum sem ráða þessum félögum á háu verði, sem þýðir að seljandinn fer út með almannafé. Að auki er það hugsanavilla og hringavitleysa að ætla að sækja ávöxtun með okri á þeim sem eiga að njóta ávöxtunarinnar.
Fleira ?
Þegar atvinnufyrirtækin eru flest orðin fákeppnisfélög, sem nærast eins og blóðsugur á neytendum, þá þarf að líta á þau sem „hálf-opinber“ félög, sem almannavaldinu sé eðlilegt að hafa ýmis afskipti af.