Fákeppni er paradís fjárfesta
Verum ekki auðtrúa og hrekklaus.
Ragnar Önundarson skrifar:
Veitustofnanir (rafm., kalt og heitt vatn, símalínur, oþh.) finnst mér að almenningur og stofnanir hans, þmt lífeyrissjóðir, eigi að eiga. Ef þær lenda í höndum einkaaðila eru þeir í auðveldri aðstöðu til að hesthúsa gróða með smávægilegum verðbreytingum. Það sem við nefnum ,,greiðslumiðlun” er í raun af sama toga og hún er beintengd innistæðum á bankareikningum. Ef í harðbakkann slær mun ríkið alltaf þurfa að vernda hana. Þetta er ein ástæða þess að ríkið mun alltaf þurfa að vera bakhjarl banka.
„Fjárfestar“ vilja ekkert fremur en fá að hafa það fé umleikis, eftirlitslaust, sem nýtur í raun ábyrgðar ríkisins. Verum ekki auðtrúa og hrekklaus, efumst þegar við heyrum fagurgalann um „frjálsa samkeppni og markaði, frjálst framtak og samningsfrelsi“ o.s.frv. Mannseðlið, með sinni hömlulausu græðgi, hefur ekkert breyst síðan 2007. Fjárfestar vilja alltaf fákeppni, hún er „paradís“ þeirra. Stóru vonbrigðin með aðildina að EES snúa að þessu: Evrópsk samkeppnislög ganga út frá virkum mörkuðum, sem varla finnast hér. Samkeppniseftirlitið er alltaf að samþykkja yfirtökur og samruna. Stjórnendur þess skilja ekki grundvallaratriðin, þeir hafa brugðist.